Það er ár og dagur síðan maður hefur lesið jafn svakalegan leikdóm og Jón Viðar Jónsson skrifar í DV í dag. Ekki aðeins gefur hann tveimur sýningum í Borgarleikhúsinu falleinkun – núll stjörnur – heldur fagnar hann því líka að leikhússtjóraferill Guðjóns Petersen skuli brátt vera á enda.
Svo lýsir hann ábyrgðinni á hendur tveimur stjórnarmönnum í Leikfélagi Reykjavíkur, Ingu Jónu Þórðardóttur og Styrmi Gunnarssyni, spyr hví Styrmir spanderi ekki „svosem einum Staksteinum, jafnvel heilu stykki leiðara, á niðurlægingu Borgarleikhúsins“?
Fleira er tínt til, brottrekstur Þorsteins Gunnarssonar leikara, stofnun leikritasjóðs undir forsæti Vigdísar, fleiri sýningar sem eiga að vera misheppnaðar; Jón Viðar hnýtir í allt sem L.R. hefur gert í langan tíma og klykkir út með því að segja:
„Snobbliðið mætir til að klappa, en almenningur finnur nályktina, sem leggur langar leiðir og flýr á braut.“
Má ekki ætla að þetta verði nokkuð umtalað?