Gestir á vef AbeBooks hafa valið ógnarlegustu persónur heimsbókmenntanna. Efstur trónir Stóri bróðir úr 1984 eftir George Orwell, Hannibal Lecter er í öðru sæti, en af öðrum skelfilegum persónum má nefna Drakúla greifa, Ratched hjúkrunarkonu úr Gaukshreiðrinu, Patrick Bateman úr American Psycho, Bill Sykes úr Óliver Twist og Voldemort úr bókunum um Harry Potter.
Hverjar myndum við velja sem ógnarlegustu persónur íslenskra bókmennta?
Ætli Elliði úr Mýrinni myndi ekki fá ansi mörg atriði eftir vinsældir bæði bókar og kvikmyndar þar sem hann er illmennið? Í þjóðsögunum er að finna Djáknann á Myrká og Axlar-Björn, okkar eigin raðmorðingi, er hálf þjóðsöguleg persóna. Í fornsögunum finnst manni Glámur helst koma til greina – hann er auðvitað draugur, frá Svíþjóð í ofanálag – Ketill í Borgarættinni er ægilega vondur framan af, Steinþór í Sölku Völku er ömurlegur náungi, en einhvern veginn er ekki að finna hreinræktuð illmenni í sögum Halldórs Laxness.
Ég er sjálfsagt að gleyma mörgum. Tillögur?