fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025

Almannagjá lokað

Harðar deilur urðu um lokun eins sérstæðasta vegarkafla landsins

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 25. mars 2016 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Um stund er farið yfir hraunsléttu, án þess að neitt undur sé í vændum, þar til vegurinn sveigist skyndilega og maður stendur efst á háum tröppulaga vegi sem liggur ofan í gjána, og við augum blasir dimm gjáin með skuggaveggjum sem smáeyðast út í fjarskann. Það er dýrleg sjón.“

Þannig lýsti sænski jarðfræðingurinn C.W. Paijkul hughrifum sínum af því að halda niður Almannagjá á Þingvöllum, en hann var á ferð um Ísland sumarið 1865. Fáir staðir hérlendis vekja jafnmikla hrifningu erlendra ferðalanga og í huga Íslendinga ríkir helgi yfir Þingvöllum.

Tröppur áður fyrr

Vegurinn um Almannagjá var á síðari öldum nefndur Kárastaðastígur. Af myndum og lýsingum ferðamanna átjándu og nítjándu aldar að dæma virðist sem stígurinn hafi verið með tröppulaga steinþrepum. Ekki er víst hvort þessi þrep voru algjör náttúrusmíð eða lögð af fyrri alda mönnum.

Árið 1897 var „nútímalegur“ malarvegur lagður um Almannagjá, enda vagnaöld runnin upp. Þá var gjáin víkkuð með sprengingum. Þessi vegur hafði þjónað landsmönnum og tignum erlendum gestum í sjö áratugi þegar komið var fram á árið 1967 – og á þeim tíma höfðu engin slys orðið á veginum, ekki einu sinni vegna grjóthruns. Samt sem áður var talin slysahætta í Almannagjá og að sama skapi þyrfti að vernda minjar í gjánni. Þær raddir heyrðust því að rétt væri að loka gjánni fyrir bílaumferð.

„Einn sérkennilegasti vegarkafli landsins“

Í dagblöðunum var fyrirhugaðri lokun Almannagjár mótmælt. Grjóthrun væri hverfandi lítið og miklu minna en á mörgum fjölförnum þjóðvegum landsins. Þá ætti lokunin ekkert skylt við náttúruvernd, því akstur um gjána ylli engum frekari spjöllum enda vegurinn fyrir hendi. Þá væri lítill vandi að rykbinda þennan vegarspotta.

Andstæðingar bílaumferðar um Almannagjá höfðu kvartað undan hávaða sem fylgdi umferðinni. Í Alþýðublaðinu var blásið á þessar röksemdir. Blaðamaður skrifaði: „Ég held, að hljóðskynjun þeirra manna, sem kenna hann [þ.e. skarkalann] einvörðungu bílaumferðinni í gjánni, sé eitthvað afbrigðileg, ekki er nema steinsnar niður að afleggjaranum heim að Valhöll og skarkalinn frá umferðinni þar nær auðveldlega eyrum manna á Lögbergi, eins og allir vita. Engir nema þeir sem eru algerlega daufdumbir geta þess vegna notið hinnar umtöluðu þagnar og kyrrðar á Lögbergi, þótti gjánni hafi verið lokað.“

Viðkomandi blaðamaður nefndi einnig að mikið rigndi á Þingvöllum og margir ferðamenn veigruðu sér við að fara út úr bílunum, enda ekki fýsilegt að ganga niður Almannagjá í úrhellisrigningu, sér í lagi fyrir illa klædda útlendinga. Þeir kynnu því að missa af þessu náttúruundri. Með lokuninni hyrfi „einn sérkennilegasti og stórbrotnasti vegarkafli á Íslandi“.

Ævintýraljómi

Sigurður Hreiðar, ritstjóri Vikunnar, lét svo um mælt: „Nú ætla þeir að loka veginum um Almannagjá. Hvaða tilgangi á það að þjóna get ég ekki skilið. Rétt og gott kann að vera að takmarka umferð um hana, en helmingi of mikið að loka henni alveg.“ Sigurður bætti því við að því fylgdi sjaldgæf hrifning að steypast í bifreið niður milli hamraveggjanna. Örlítill beygur magnaði hughrifin. Sérstaklega vekti þetta hrifningu erlendra gesta. Sigurður kvaðst hafa hitt Ítala í Austur-Berlín sem komið hafði til Íslands. Honum voru efst í huga „dyrnar“ að Þingvöllum. Þær væru sveipaðar ævintýraljóma í hans huga. Sigurður sagði svo: „Á síðasta ári, 1966, komu alls um 43.700 erlendir ferðamenn til landsins og því má örugglega slá föstu að helmingur þeirra að minnsta kosti hafi farið veginn norður Almannagjá. Höfum við efni á að missa þá auglýsingu, að kannski 20 þúsund ferðalangar eða meira segi hver um sig ekki færri en fimm manns frá ævintýraferðinni til Þingvalla?“

Þrátt fyrir mótbárur margra tók Þingvallanefnd um það ákvörðun í byrjun septembermánaðar 1967 að loka Almannagjá. Í bókun nefndarinnar sagði að lokun hefði lengi verið til umræðu en ekki verið raunhæf vegna þess að vegurinn inn á Leirur hafi ekki verið fullnægjandi til að taka við allri umferðinni. Þá um sumarið hafði hann verið lagfærður og forsendur því aðrar.

Margir áttu erfitt með að sætta sig við breytinguna.
Lokað fyrir bílaumferð Margir áttu erfitt með að sætta sig við breytinguna.

„Nú er hún Snorrabúð stekkur …“

Það var loks hinn 1. nóvember 1967 klukkan 12 á hádegi að lokað var endanlega fyrir bílaumferð niður Almannagjá og rammefldri keðju brugðið milli tveggja steinstólpa þvert yfir veginn á gjábarminum. Keðjunni var síðan læst með sterklegum koparlás. Í einu dagblaðanna sagði af þessu tilefni: „Síðustu bílarnir fikruðu sig nú niður gjárveginn, fólkið í þeim var þögult. Þetta var eins og við jarðarför, máski fannst því eins og verið væri að höggva niður Íslandsklukkuna öðru sinni.“ Einn ferðalangur heyrðist segja um leið og hann blés í kaun: „Nú er hún Snorrabúð stekkur …“ Og í einu blaðanna var þess getið að líklega myndu flestir Íslendinga sakna þess að geta ekki lengur ekið niður „skuggalega gjána ofan úr birtunni einkanlega börnum og unglingum, sem oftast hefur fundist þetta vera hið merkilegasta, þegar þeir hafa komið á Þingvöll í fyrsta skipti“.

Við breytinguna lengdist leiðin til Þingvalla um hálfan fimmta kílómetra. Séra Eiríkur J. Eiríksson þjóðgarðsvörður kvaðst sakna þess að geta ekki ekið niður Almannagjá. Aftur á móti væri ómögulegt að segja hvort ferðamenn myndu í framtíðinni ganga niður gjána. Útlendingar hefðu fram til þess tíma verið tregir til að fara út úr bílunum í gjánni.

Áfram deilt um málið

Margir áttu erfitt með að sætta sig við breytinguna. Ári síðar rifjaði Gylfi Gröndal, ritstjóri Vikunnar, upp þá ógleymanlegu reynslu að aka niður á milli snarbrattra klettaveggjanna og sjá loks í hillingum græna gróðurrönd bera við bláan himin og sagði svo: „Nú er þetta liðin tíð. Almannagjá hefur verið lokað, og enginn fær framar að aka niður hana. Leiðsögumenn erlendra ferðamanna hafa kvartað sáran yfir þessari ráðstöfun og raddir fjölmargra annarra aðila benda til þess, að flestir sakni þess að fá ekki lengur að heimsækja helgasta stað landsins á þann gamla og sérkennilega hátt að aka niður gjána.“ Gylfi hvatti nefndarmenn í Þingvallanefnd til að sjá sig um hönd og láta malbika vegarspottann niður gjána. Því yrði fagnað heilshugar af innlendum, jafnt sem erlendum ferðalöngum.

Flestir sem tóku til máls um lokun Almannagjár voru andvígir ákvörðun Þingvallanefndar. Dr. Gunnlaugur Þórðarson hæstaréttarlögmaður sagði í útvarpsþættinum Um daginn og veginn að ákvörðunin hefði verið misráðin og að megn óánægja ríkti með málið meðal almennings.

Deilt var um lokunina næstu árin, en hörðust var gagnrýnin frá ferðamálafrömuðum. Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, 21. júní 1970, svaraði þessum röddum fullum hálsi og sagði: „… Almannagjá [er] hluti af okkar fornhelga þingstað, og er jafnfráleitt, að trufla hann með bílaumferð eins og söfn, kirkjur, Colosseum, Akropólis eða aðra slíka helgistaði annarra þjóða. Ofan á þetta bætist mikil hætta af grjóthruni, ef uppi væri haldið stöðugri umferð þungra ökutækja.“ Síðar var upplýst að höfundur Reykjavíkurbréfsins var Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, en hann lést á Þingvöllum aðeins rúmum hálfum mánuði eftir að þetta var ritað.

Er orðið tímabært að hreinsa malaríburðinn?

Síðan þá hefur aðeins bílalestum þjóðhöfðingja verið leyft að aka niður Almannagjá. Seinasta slíka ferðin var farin í opinberri heimsókn Jiang Zemin Kínaforseta sumarið 2002. Níu árum síðar birtist sprunga í veginum um Almannagjá. Landsmenn höfðu því farið um gjána á þunnu sandlagi, sem virðist hafa „hangið saman á lyginni“ eins og einn nefndarmaður í Þingvallanefnd orðaði það.

Því má velta upp hvort ekki sé tímabært að hreinsa malaríburðinn úr gjánni og gera gönguleiðina þar líkari því sem hún var upphaflega með steinþrepum. Við gætum þá færst enn nær hinum forna tíma er gengið er eftir hinni tignarlegu hamraþröng.

Björn Jón Bragason / birtist fyrst í prentútgáfu DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Einn af fáum sem hafnar peningunum í Sádi

Einn af fáum sem hafnar peningunum í Sádi
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Þekktur umboðsmaður kærður fyrir að eiga kynlífsþræl og að hafa nauðgað henni 39 sinnum – Sá um mál fyrir Íslendinga

Þekktur umboðsmaður kærður fyrir að eiga kynlífsþræl og að hafa nauðgað henni 39 sinnum – Sá um mál fyrir Íslendinga
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Margrét Lára reyndist sannspá með leikinn gegn Finnum

Margrét Lára reyndist sannspá með leikinn gegn Finnum
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Kyle Walker á leið í annað lið á Englandi

Kyle Walker á leið í annað lið á Englandi
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

Jónas kvartaði yfir ljósum á tónleikum Norah Jones – „Líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð“

Jónas kvartaði yfir ljósum á tónleikum Norah Jones – „Líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Rob Holding aftur á meðal Íslendinga í stúkunni um helgina – Hann og Sveindís ræða aldrei um fótbolta

Rob Holding aftur á meðal Íslendinga í stúkunni um helgina – Hann og Sveindís ræða aldrei um fótbolta
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Höfðu komið upp reglulega öryggisgallar í bílnum sem Jota og bróðir hans voru á

Höfðu komið upp reglulega öryggisgallar í bílnum sem Jota og bróðir hans voru á
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Jörundur Áki fór yfir sviðið á liðshóteli Íslands – Hlustaðu á þáttinn hér

Jörundur Áki fór yfir sviðið á liðshóteli Íslands – Hlustaðu á þáttinn hér