Það eru margir sem kannast við nafnið Martin Braithwaite sem er leikmðaur Gremio í Brasilíu.
Ekstrabladet í Danmörku birti ansi athyglisverða frétt í dag þar sem fjallað er um hinn 33 ára gamla sóknarmann.
Braithwaite er fyrrum leikmaður Middlesbrough, Barcelona og Espanyol en hann er forríkur og á nokkur fyrirtæki í Bandaríkjunum.
Samkvæmt heimildum Ekstrabladet er Braithwaite að skoða kaup á Espanyol sem spilar í efstu deild á Spáni.
Tekið er fram að Braithwaite sé óánægður með núverandi eigendur félagsins en samningi hans við þá spænsku var rift á þessu ári.
Núverandi eigendur Espanyol eru ekki vinsælir á meðal stuðningsmanna félagsins sem gæti hjálpað þeim danska ef viðræður hefjast á næstunni.