Jamie Carragher svaraði stuðningsmanni Liverpool fullum hálsi á samfélagsmiðlinum X í gær.
Carragher hafði þá hrósað Cole Palmer í hástert á Sky Sports eftir að hann skoraði tvö mörk í sigri gegn Tottenham. Palmer hefur verið magnaður í búningi Chelsea.
„Hann var svo góður í fyrra og er að byrja þetta tímabil mjög vel. Ef þú tekur þessa 18 mánuði hans hjá Chelsea þá held ég að enginn í ensku úrvalsdeildinni hafi verið betri á þeim tíma, þessum 18 mánuðum,“ sagði Carragher.
Stuðningsmaðurinn tók aðeins hluta úr þessum ummælum Carragher og birti á X. Kom það út eins og Carragher hafi sagt að Palmer væri besti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar.
„Vertu alvarlegur. Þú reynir alltof mikið,“ skrifaði netverjinn.
Carragher lét hann ekki komast upp með þetta.
„Þú ættir kannski að reyna meira og setja fram allt sem ég sagði. Ég sagði að hann væri sá besti undanfarna 18 mánuði. En þú veist það sennilega en þig þyrstir bara of mikið í like. Vinsamlegast hættu að fylgja mér (á X).“