Það má svo sannarlega segja að Wayne Rooney sé ekki vinsælasti maðurinn í Plymouth þessa dagana.
Plymouth spilar í næst efstu deild en liðið lék við Bristol City í gær og tapaði mjög sannfærandi 4-0.
Plymouth átti fjögur skot að marki Bristol í leiknum en það síðarnefnda átti 25 skot og var sigurinn aldrei í hættu.
Rooney tók við Plymouth í sumar og er liðið í 21. sæti deildarinnar og hefur fengið á sig 38 mörk í aðeins 18 leikjum.
Það er ekkert lið sem kemst nálægt Plymouth í þeirri tölfræði en Portsmouth er á botninum og hefur fengið á sig 30.
Stuðningsmenn Plymouth létu vel í sér heyra á samskiptamiðlum eftir leikinn í gær og er kallað eftir því að félagið láti Rooney fara sem fyrst.