Frank Lampard fyrrum leikmaður og stjóri Chelsea segist hafa hitt Cristiano Ronaldo í sumarfríi á dögunum og séð hvað Cristiano Ronaldo leggur á sig.
Ronaldo er 39 ára gamall en er mættur á Evrópumótið í sjötta sinn með Portúgal.
„Ég hitti hann í sumarfríi á dögunum. Við vorum á sama hótelinu, ég var fljótur að skella mér í bol og fá eina mynd með honum,“ sagði Lampard í enska sjónvarpinu í gær yfir leik Portúgals og Tékklands á EM.
„Ég sá það að hann fór tvisvar á dag í ræktina og var með einkaþjálfarann sinn með sér í fríinu.“
„Þetta sannaði bara fyrir mér hvað hann er tilbúinn að gera til að vera í formi.“
Lampard sagðist ekki alveg hafa verið í sömu hugleiðingum. „Ég var mögulega að fá mér bjór og klappaði bara fyrir honum þegar hann kláraði æfinguna.“