8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna voru leikin í heild sinni í kvöld.
Þróttur heimsótti Aftureldingu og vann stórsigur, þar sem Leah Maryann Pais gerði öll mörkin í 1-4 sigri. Katrín S. Vilhjálmsdóttir klóraði í bakkann fyrir Aftureldingu.
Breiðablik vann þá þægilegan sigur á Keflavík. Katrín Ásbjörnsdóttir, Anna Nurmi og Barbára Sól Gísladóttir komu þeim í 3-0 áður en Melanie Claire Rendeiro minnkaði muninn fyrir Keflavík. Katrín var svo aftur á ferðinni með mark af vítapunktinum og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir kom Blikum í 5-1. Saorla Lorraine Miller minnkaði muninn fyrir Keflavík af vítapunktinum í blálokin. Lokatölur 5-2.
FH tók á móti Þór/KA og mark Söndru Maríu Jessen fyrir gestina snemma í seinni hálfleik skildi liðin að. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir klikkaði svo á víti fyrir FH sem reyndist dýrt.
Loks vann Valur 0-6 sigur á Grindavík. Nadía Atladóttir og Jasmín Erla Ingadóttir gerðu tvö mörk hvor en hin mörkin skoruðu Ísabella Sara Tryggvadóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir.