Ein stjarna enska landsliðsins var steinhissa eftir að hafa frétt af landsliðshópi Englands sem mun ferðast í lokakeppni EM í Þýskalandi í sumar.
Frá þessu greinir Telegraph en miðillinn segir að þessi ákveðni aðili hafi heimtað að fá að ræða við landsliðsþjálfarann sjálfan, Gareth Southgate.
Leikmaðurinn er ekki nafngreindur en hann var mjög hissa á að Jack Grealish hefði ekki verið valinn í 26 manna lokahópinn fyrir keppnina.
Það kom mörgum á óvart er Grealish var ekki valinn en hann er leikmaður Manchester City sem vann Englandsmeistaratitilinn í ár.
Telegraph segir að leikmaðurinn hafi beðið Southgate um að útskýra ákvörðunina fyrir framan liðsfélaga sína en Grealish var sjálfur miður sín eftir að hafa heyrt af fréttunum.
Southgate reyndi sitt besta til að svara fyrir sig fyrir framan landsliðsmennina en hvort andinn í hópnum verði eðlilegur í Þýskalandi verður að koma í ljós á næstu vikum.