John Obi Mikel fyrrum miðjumaður Chelsea segir að Sir Alex Ferguson hafi loksins fyrirgefið sér eftir að miðjumaðurinn sveik hann fyrir 18 árum.
Obi Mikel sem kemur frá Nígeríu var þá að spila í Noregi þegar hann samdi við Manchester United.
Nokkru síðar fór hann í felur og vildi ekki fara til United því Chelsea var mætt á svæðið með seðlana.
„Það er mjög gott að stjórinn hefur loksins fyrirgefið mér eftir svo langan tíma,“ sagði Obi Mikel á Talksport í dag en hann hitti Ferguson um helgina.
Ferguson og Obi Mikel voru þá mættir á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem Real Madrid vann sigur á Dortmund.
„Hann ræddi þessa sögu reglulega á ferlinum sínum, hann talaði um að hafa misst mig. Hann er góður maður, hann er 82 ára gamall en í góðu standi.“
„Hann sagði mér að ég hefði átt frábæran feril hjá Chelsea, ég get ekki sagt neitt slæmt um Ferguson. Hann hefur fyrirgefið mér.“