Það eru margir sem kannast við nafnið Matthew Briggs en hann lék um tíma með liði Fulham í ensku úrvalsdeildinni.
Briggs varð á sínum tíma yngsti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar en hann kom inná í leik með Fulham 2007 aðeins 16 ára gamall.
Ferill Briggs náði þó aldrei flugi en hann er 33 ára gamall í dagog hefur lagt skóna á hilluna eftir stutt stopp hjá Horsham í utandeildinni.
Briggs tók þá ákvörðun á sínum tíma að fara ekki í skóla með fótboltanum og sér hann mikið eftir því í dag.
Englendingurinn bjóst við því að verða næsta stórstjarna Englands en hann náði aldrei að leika í efstu deild eftir 2014.
,,Ég sótti aldrei um í skóla því ég byrjaði svo ungur. Ég bjóst bara við því að ég yrði næsti Wayne Rooney, næsti Theo Walcott,“ sagði Briggs.
,,Ég hugsaði með mér að þetta væri komið, að ég þyrfti ekki á skólanum að halda. Ég gerði ekkert með fótboltanum. Þegar mér var sagt að ég þyrfti að hætta og það væri ekki undir mér komið, mér var brugðið.“
,,Ef ég get ekki spilað fótbolta, hvað get ég gert? Hvernig get ég haldið mér á floti? Hvernig get ég séð um fjölskylduna?“