Þær Kristín Dís Árnadóttir og Selma Sól Magnúsdóttir eru ekki í leikmannahópi Íslands í leiknum gegn Austurríki sem nú stendur yfir í undankeppni EM. Er það vegna tæknilegra örðuleika og mannlegra mistaka, eftir því sem fram kemur hjá KSÍ.
„Vegna tæknilegra örðugleika við skráningu í mótakerfi UEFA og afleiddra mannlegra mistaka verða þær Kristín Dís Árnadóttir og Selma Sól Magnúsdóttir ekki í leikmannahópi A kvenna gegn Austurríki í dag. Fulltrúar KSÍ hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að leysa málið með fulltrúum UEFA, en án árangurs,“ segir í tilkynningu KSÍ.
Þetta var að sjálfsögðu rætt í upphitun fyrir leikinn á RÚV.
„Óheppilegt er vægt til orða tekið. Maður veit ekki hvað hefur komið upp á,“ sagði Ágerður Stefánía Baldursdóttir og bendir á að Selma hafi spilað stóra rullu í undanförnum landsleikjum.
Albert Brynjar Ingason tók til máls.
„Þetta er virkilega lélegt. Ef það hefur gleymst að skrá leikmennina inn, þá er það til skammar og mjög vandræðalegt fyrir KSÍ. Ef þetta eru tæknilegir örðuleikar UEFA megin þá er mjög skrýtið að það sé ekki gefið eitthvað svigrúm.“