fbpx
Föstudagur 16.maí 2025
Fókus

Nærðar konur svara gagnrýni Lóu Bjarkar – „Gríðarleg einföldun og sorgleg leið til að stilla okkur upp á móti hvorri annarri“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 19. febrúar 2024 12:29

Lóa Björk Björnsdóttir, Ronja Mogensen og Ingeborg Anderssen.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingeborg Anderssen grasalæknir og Ronja Mogensen svara gagnrýni dagskrárstjórans Lóu Bjarkar Björnsdóttur í Lestinni á Rás 1 um að verkefni þeirra, Nærðar konur, sé bakslag fyrir konur.

„Að hlusta á viðtalið var eins og að heyra einhvern lýsa því sem við gerum og stöndum fyrir, en með hæðnistón,“ sögðu þær um þáttinn.

Áköf mæðrun

Lestin endurflutti á dögunum innslag Lóu Bjarkar frá því á síðasta ári, þegar hún ræddi við Auði Magndísi Auðardóttur og Önnudís Gretu Rúdólfsdóttur, fræðikonur á menntavísindasviði Háskóla Íslands, um hugtakið áköf mæðrun.

Auður og Annadís kynntu niðurstöður rannsóknar þeirra um hvernig hugmyndir okkar um móðurhlutverkið hafa breyst á 50 árum. Þær greyndu 274 fjölmiðlaviðtöl við mæður frá 1970-1979 og 2010-2019. Í þættinum ræddu þær um hverju þær komust að við rannsóknina.

„Það sem við sjáum til dæmis er að núna er það svo æskilegt fyrir konur að verða mæður af því að það þroskar þær. Það er einhvers konar andleg upphafning eða andleg vakning sem er falin í því að verða móðir sem þú getur ekki fengið með öðrum hætti. Þá er náttúrulega undirliggjandi skilaboðin að ef þú ert ekki móðir ,getur það ekki eða kýst að verða ekki móðir, að það vanti eitthvað í þig. Það var ekki ein setning um þetta á fyrra tímabilinu [í viðtölum frá 1970-1979].

Núna er þetta algjörlega upphafið og heilög skylda, sem er kannski ekki mjög vænlegt til jafnréttisáttar.“

Þær ræða nánar ákafa mæðrun í nútímasamfélagi í þættinum, umræðan hefst sirka á mínútu 36:00. Síðan snerist umræðan að Nærðum konum.

Virkar sakleysislegt, en er það?

Lóa Björk útskýrði hvað Nærðar konur eru fyrir Auði og Önnudís:

„Þar er að finna alls konar fræðslu um tíðahringinn og heilsu kvenna. Það er verið að tala um þessi mál út frá, veit ekki hvort það væri rétt að nota grasalækningar, það er einhver heildræn nálgun, heimafæðingar, að vera með doulu sem hjálpar þér að komast í gegnum fæðinguna. Mikið talað um kvenorku, tíðarhringinn, mataræði og auðvitað mikilvægi þess að vera í tengslum við aðrar konur og að mynda sterk tengsl við aðrar konur og fá styrk í gegnum það. Þær eru að finna svona setningar til dæmis, sem eru orðnar mjög vinsælar á samfélagsmiðlum. Svona grafísk uppsetning á einhverjum frösum og speki. Það stendur: Nærð kona er mjúk, nærð kona ber djúpa virðingu fyrir þeim gjöfum sem fylgja kvenlíkamanum, blæðingum, fæðingu, móðurhlutverki og breytingaskeiði.

Mér finnst áhugavert að skoða þetta því þetta gæti virkað sakleysislegt og bara til þess gert að efla konur og að konur fá styrk í gegnum það að tengjast og læra af hver annarri, en svo getur maður líka lesið á milli línanna að það sé æðsta hlutverk kvenna að eignast barn og verða móðir.“

Lóa Björk spurði Auði og Önnudís hvernig þetta kæmi þeim fyrir sjónir og sögðu þær þetta vera hluta af lífsstílsiðnaðinum sem hefur skapast í kringum móðurhlutverkið. „Mér sýnist þetta vera smá afturhvörf til níunda áratugarins.“

„Á samfélagsmiðlum þá kemur það manni þannig fyrir sjónir að femínismi og umræða um kvenréttindi og jafnrétti kynjanna er mjög virk en á sama tíma er að verða til einhverjar svona stefnur og straumar sem manni finnst vera eitthvað svona bakslag,“ sagði Lóa Björk.

Umræðan um Nærðar konur hefst á mínútu 44:10 í þættinum, smelltu hér til að hlusta.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by NÆRÐAR KONUR (@naerdarkonur)

Svara fyrir sig

Ronja og Ingeborg eru tveir af stofnendum Nærðar konur og svöruðu gagnrýninni í færslu á Facebook.

„Nærðar konur er kvennasamfélag með það meginmarkmið að veita konum utanumhald, stuðning og tenglasetur. Við höldum úti fjölbreyttum kvennahringjum, umræðum um barnaeignarferlið og móðurhlutverkið, söng- og dans hringjum, kvennasaunum- og floti.

Við sköpum umræður um allt sem tengist lífi kvenna, félagsleg málefni, femínisma, kvenheilsu og fleira.

Okkur þótti bæði undarlegt og sorglegt að heyra fjallað um okkar starf sem bakslag fyrir konur, kvenréttindi og feminísku baráttuna, þar sem okkar drifkraftur liggur einmitt í ást og trú okkar á konur og ótæmandi kraft þeirra. En þetta viðtal fyllti okkur af eldmóði og skýrði enn frekar fyrir okkur hvað vinnan sem við erum að gera er mikilvæg, einmitt á grundvelli velferðar kvenna.“

Áttu erfitt með að skilja gagnrýnina

Ronja, Ingeborg og hinar konurnar sem eru á bak við verkefnið Nærðar konur eru undir þrítugt.

„Við erum konur fæddar á árunum 1995-1997. Femínisminn sem við ólumst upp við einkenndist af stórum hluta að því að hunsa að við værum konur. Við áttum að hunsa blæðingarnar okkar, hunsa orkuflæðið okkar sem vex og fellur með tíðahringnum, taka bara verkjalyf, stinga í okkur eitruðum túrtappa og halda ótrauðar áfram. Við áttum að taka hormónalyf með aukaverkunum sem hafa skaðbrennt andlega og líkamlega heilsu kvenna síðustu kynslóðir. Við áttum að hræðast fæðingar, sjá líkama okkar sem gallaða vél sem þarf að bjarga okkur frá, ef ekki í fæðingu þá á breytingaskeiðinu. Móðurhlutverkið var gildra sem aftraði okkur í lífinu og kom í veg fyrir að við yrðum merkilegar konur. Við ólumst upp í þeirri trú að kona sem finnur ástríðu í og kýs að ala upp börnin sín umfram annað væri misheppnuð nútímakona.

Við erum þakklátar fyrir alla umfjöllun um verkefnið okkar, sjáum skoðanaskipti af hinu góða og tökum ábendingum um hvar við megum gera betur fagnandi. Við áttum hins vegar í erfiðleikum með að skilja hver raunveruleg gagnrýni viðmælenda var. Að hlusta á viðtalið var eins og að heyra einhvern lýsa því sem við gerum og stöndum fyrir, en með hæðnistón.“

Segja þetta ekki bakslag fyrir konur

Ronja og Ingeborg segjast vera mótfallnar þeirri hugmyndafræði að upphafning móðurhlutverksins sé bakslag fyrir konur.

„Í umræddu viðtali gagnrýna viðmælendur afstöðu okkar gagnvart barneignarferlinu, en við stöndum í þeirri trú að það sé eitt mest umbreytandi ferðalag sem kona getur gengið í gegnum. Að gefa í skyn að móðurhlutverkið sé ekki andleg vegferð er, að okkar mati, einfaldlega rangt. Hver sú kona sem gengið hefur með barn og fætt það getur sagt okkur að það eru fáar reynslur í þessum heimi sem eru jafn umbreytandi.

Að skapa líf úr engu, að næra og halda utan um það innra með þér í 10 mánuði og leyfa því svo að ferðast í gegnum líkamann þinn með blóði, svita, slími, tárum og alsælu þar til hún lendir í fanginu þínu – það er ekkert jafn stórt, jafn hversdagslegt eða jafn merkilegt. Nýfædda móðirin verður aldrei söm aftur. Eldvígslan inn í móðurhlutverkið er hönnuð til að gjörbreyta okkur, styrkja okkur og sýna okkur hvað í okkur býr.“

„Að líta á upphafningu mæðra sem niðursetningu kvenna sem velja annað er gríðarleg einföldun og sorgleg leið til að stilla okkur upp á móti hvorri annarri, eins og svo oft hefur verið gert í gegnum söguna. Að upplifa það sem ógn þegar önnur kona finnur kraftinn sinn er athyglisvert að skoða fyrir okkur allar.

Lestu allan pistilinn frá Nærðum konum hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Áhrifavaldur sætir harðri gagnrýni: „Þetta er bókstaflega hættulegasta kynjaveisla sem ég hef séð“

Áhrifavaldur sætir harðri gagnrýni: „Þetta er bókstaflega hættulegasta kynjaveisla sem ég hef séð“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tárvot Cassie Ventura lýsti því fyrir dómi hvernig Sean „Diddy“ Combs barði hana og niðurlægði

Tárvot Cassie Ventura lýsti því fyrir dómi hvernig Sean „Diddy“ Combs barði hana og niðurlægði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Magnús Carlsen á von á litlu peði með drottningu sinni

Magnús Carlsen á von á litlu peði með drottningu sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Búin að tilkynna mér að hún ætli að loka á samskipti við 7 ára son minn ef ég leyfi honum að horfa á Eurovision“

„Búin að tilkynna mér að hún ætli að loka á samskipti við 7 ára son minn ef ég leyfi honum að horfa á Eurovision“