Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, segir að orð sín um að hann myndi íhuga framtíð sína hjá félaginu vera tekin úr samhengi. Ummælin komu nokkrum dögum eftir að Jurgen Klopp sagði frá því að hann ætlaði að hætta í sumar.
Van Dijk á rúmt ár eftir af samningi sínum við Liverpool en hann segist einbeittur á það að gera vel fyrir félagið.
„Þetta er tekið úr samhengi, höfum það á hreinu. Ég gef allt fyrir þetta félag,“ segir Van Dijk í dag.
„Ég elska félagið, ég elska stuðningsmennina. Þessi ummæli eru svo sannarlega tekin úr samhengi, þetta snýst ekkert um mig. Þetta snýst allt um liðið.“
„Fyrir fimm dögum var samningur minn ekki til umræðu, ég vil gera vel fyrir félagið og gera þetta að sérstöku tímabili.“
Hann segir þó að tíðindin um að Klopp ætlaði að hætta hefðu verið áfall fyrir sig. „Þetta var auðvitað merkileg tilkynning og þetta er áfall fyrir alla tengda félaginu,“ segir Van Dijk.
„Mér hefur liðið eins og öllum stuðningsmönnum félagsins. Við viljum samt ná árangri, við viljum gefa allt í botn og ná þeim markmiðum sem við settum í upphafi tímabils. Við erum í góðri stöðu.“