Rashford var ekki valinn í hóp United fyrir bikarleikinn gegn Newport á sunnudag í kjölfar þess að hann missti af æfingu eftir gott skrall í Belfast á fimmtudag. Var hann einnig sektaður um 650 þúsund pund. Áðurnefndur þjónn er Sarah Adair og hún segir leikmanninn aldrei hafa ætlað sér að ná æfingu enska stórliðsins á föstudag.
Sarah afgreiddi Rashford og hans gengi á veitingastaðnum sem hún vinnur á. Þetta var um klukkan 14 á fimmtudag en henni var svo boðið að djamma með Rashford og félögum um kvöldið. Hún segir að á þessum tímapunkti hafi knattspyrnumaðurinn þegar verið farinn að sturta í sig tekíla.
Sarah kannaðist sjálf ekki við Rashford en yfirmaður hennar gerði það, enda mikill stuðningsmaður United. Hann bað stjörnuna um mynd en hann neitaði í fyrstu. Svo samþykkti hann það gegn því að Sarah fengi að fara fyrr til að djamma með þeim.
Rashford spurði svo Söruh hvort einhverjir næturklúbbar væru opnir lengur en til 3 um nóttina, gegn því að hann myndi borga þeim fyrir það. „Þarna sá ég að hann ætlaði sér aldrei á æfinguna á föstudeginum,“ segir Sarah.
Rashford var búinn að leigja alla efri hæð staðarins fyrir sig og spilaði sína eigin tónlist. Sarah segir að hann hafi tjáð sér á staðnum að hann væri búinn að drekka í allan dag. „Hans markmið var að verða drukkinn þetta kvöld,“ segir Sarah, en einn vinur hans hafði minnt hann á að það væri æfing daginn eftir.