Rasmus Hojlund og Alejandro Garnacho, leikmenn Manchester United, voru mættir í viðtal við Sky Sports eftir leik við Aston Villa í kvöld.
Villa tók 2-0 forystu á Old Trafford en tvenna frá Garnacho og sigurmark frá Hojlund tryggðu heimamönnum sigur.
Þeir félagar voru að sjálfsögðu hæstánægðir eftir leikinn en Hojlund var sjálfur að skora sitt fyrsta deildarmark fyrir nýja félag sitt.
,,Takk kærlega, þetta er frábær tilfinning. Við vitum að við erum Manchester United, við erum 2-0 undir en við gefumst aldrei upp og endurkoman var frábær,“ sagði Garnacho.
,,Ég sagði við þá í hálfleik að við þyrftum bara eitt mark og halda svo áfram að pressa á þá. Ég er ánægður fyrir hönd Rasmus, það eru of margir sem tala um að framherjarnir hjá United séu ekki að skora en í dag gerðum við það og Marcus Rashford lagði einnig upp. Þetta er einn besti dagur í mínu lífi.“
Hojlund var næstur og var Daninn að sjálfsögðu gríðarlega ánægður með sitt fyrsta mark í deildinni.
,,Þetta hefur tekið sinn tíma en ég er ánægðasti maður jarðar í dag, það er hægt að sjá það á fögnuðinum. Við höfðum alltaf trú og sýndum mikinn karakter.“
,,Ég er búinn að skora nokkur í Meistaradeildinni en það er ánægjulegt að ná því fyrsta í deildinni og vonandi get ég byggt ofan á þetta.“