Sol Campbell, fyrrum varnarmaður Arsenal, Tottenham og enska landsliðsins, er hættur þjálfun aðeins 49 ára gamall.
Campbell hefur sjálfur staðfest það en hann segir að ekkert félag sé tilbúið að gefa sér tækifæri sem aðalþjálfari.
Campbell lagði skóna á hilluna árið 2011 og hefur þjálfað nokkur lið eins og Macclesfield Town og Southend United.
Það voru erfið verkefni og gengu hlutirnir ekki eins og í sögu en undanfarin ár hefur þessum fyrrum landsliðsmanni mistekist að fá nýtt starf í sama bransa.
Campbell ætlar því að einbeita sér að öðru í fótboltanum og er líklegt að hann verði hluti af þjálfarateymi í framtíðinni.
,,Ég væri til í að vera hluti af fótboltanum og fá tækifæri en það er ekki að gerast. Þú þarft því að horfa á fótboltann öðrum augum og það er það sem ég mun byrja að gera,“ sagði Campbell.
,,Vonandi gengur það upp og ég get hjálpað leikmönnum en bara á annan hátt en ég bjóst við.“