Margrét Friðriksdóttir, ritstjóri og eigandi Fréttin.is, segist vera alvarlega að spá í að hætta rekstri miðilsins. Segir hún í færslu á Facebook-síðu sinni að reksturinn gangi erfiðlega því að fáir séu tilbúnir til þess að kaupa auglýsingar og styðja þannig við miðilinn. Telur Margrét að það sé afleiðing útskúfunarmenningarinnar hérlendis sem sé að hennar mati svartur blettur á íslensku samfélagi.
„Fólk á Íslandi veigrar sér ekki við grófar árásir gegn þeim sem þora að viðra aðrar skoðanir og sýna fleiri hliðar sem ætti að vera sjálfgefið í lýðræðislegu samfélagi, þar sem skoðana og tjáningafrelsið á að vera hornsteinninn.
Það er sárt að þurfa hætta á fullri ferð og í ljósi þess að Fréttin er með miklar heimsóknir á hverjum degi. Í síðasta mánuði fórum við í 1.3 milljónir heimsókna og erum með margfalt fleiri heimsóknir en margir sambærilegir miðlar og erum næstum á pari við Viðskipablaðið og Keldan er með helmingi færri heimsóknir en Fréttin,“ bendir Margrét á.
Segist hún óska eftir öllum hugmyndum frá lesendum sínum og velunnurum um hvernig væri hægt að bjarga miðlinum enda megi hún ekki til þess hugsa að henda inn hvíta handklæðinu. „Verst að hugsa til þess að brjálaða woke réttrúnaðarliðið myndi þá vinna og sennilega hlakka í mörgum. En ég eins og aðrir þarf að eiga fyrir salti í grautinn og ekki hægt að halda áfram á þessari braut á meðan stuðningurinn er svona slakur, meira segja þeir sem að styðja Fréttina hafa veigrað sér við að birta greinar af miðlinum af hræðslu við árásir, það er sorglegast að horfa upp á,“ segir Margrét og lætur fylgja með tölfræði yfir heimsóknir á vefinn.
Margrét boðaði stofnun síðunnar í október 2020 en rúmu ári síðar, í desember 2021, fékk hún síðuna skráða sem fjölmiðil hjá Fjölmiðlanefnd. Það vakti talsvert umtal og sagði Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, meðal annars að miðilinn væri„bloggsíða sem vill láta líta á sig sem fjölmiðil“ og að þar væru settar fram fréttir„í ákveðnum tilgangi.“ Miðill Margrétar starfaði því ekki samkvæmt grundvallarreglum blaðamennsku.