Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segir að ætlunin sé að breyta ákvæðum um mannúðarleyfi og verði ákvæði sem heimilar veitingu slíks leyfis fellt niður, hafi umsækjandi ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan lögbundinna tímamarka.
Segir í skýringu með frumvarpinu að Ísland sé, að því er best sé vitað, eina ríkið á Norðurlöndum sem veiti dvalarleyfi á þessum grundvelli.
Einnig er fyrirhugað að fella niður rétt umsækjenda til ókeypis talsmannsþjónustu á báðum stjórnsýslustigum. Fram kemur að í Evrópu nái þessi réttur, ef hann er til staðar, almennt aðeins til málsmeðferðar á kærustigi en ekki hjá því stjórnvaldi sem tekur við umsóknum og afgreiðir þær. Rétturinn sé því meiri hér á landi en í nágrannaríkjunum og talsverður kostnaður falli á ríkissjóð vegna þess.