Það er alls ekkert erfitt að vinna með goðsögninni Cristiano Ronaldo að sögn framherjans Javier Hernandez.
Hernandez eða Chicharito eins og hann er yfirleitt kallaður vann með Ronaldo hjá Real Madrid í eitt ár og hefur ekkert nema gott að segja um Portúgalann.
Ronaldo var þá upp á sitt besta og þetta tímabil skoraði hann 61 mark sem er ótrúlegur árangur.
Margir vilja meina að Ronaldo sé sjálfselskur og að hann hugsi lítið um gengi liðs síns en Chicharito er alls ekki á því máli.
,,Cristiano var magnaður í klefanum sem og hans vinnubrögð. Ég hef aldrei hitt manneskju sem segir að hann sé erfiður að eiga við eða flókinn,“ sagði Chicharito.
,,Cris er Cris. Við þekkjum hans persónuleika og keppnisskap en það er ekki hægt að gagnrýna hann sem liðsfélaga.“