Íslenska liðið tapaði 3-1 gegn Lúxemborg í undankeppni EM 2024 á föstudag og var frammistaðan alls ekki góð.
„Nei, það breytir því ekki. Við verðum að halda í bestu leikmennina en líka koma ungu leikmönnunum inn í þetta,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í Laugardal í gær, aðspurður hvort tapið í Lúxemborg breyti nálgun hans þegar kemur að síðustu fimm leikjum riðilsins.
Hareide benti jafnframt á að Ísland gæti átt mikilvæga leiki framundan eftir þessa undankeppni og að það sé mikilvægt að halda mönnum á tánum.
„Það er önnur undankeppni næsta haust og þetta er ekki alveg búið því við förum líklega í umspilið (um sæti á EM 2024 í gegnum Þjóðadeildina) í mars. Það er mjög mikilvægt að koma stöðugleika á liðið fyrir það.“
Ísland tekur á móti Bosníu-Hersegóvínu klukkan 18:45 í kvöld í næsta leik sínum.