Búið er að tilnefna þá 30 leikmenn sem koma til greina í Gullknettinum þetta árið, um er að ræða eftirsóttustu einstaklingsverðlaun fótboltans.
Flestir telja að valið standi á milli Lionel Messi eða Erling Haaland. Báðir áttu gott síðasta tímabil.
Haaland skoraði yfir 50 mörk fyrir Manchester City á sínu fyrsta tímabili þar sem liðið vann þrennuna eftirsóttu.
Á sama tíma varð Messi, Heimsmeistari með Argentínu en hjá PSG í Frakklandi var hann ekki magnaður.
„Ef Erling vinnur ekki, þá er hægt að loka sjoppunni,“ segir Craig Burley fyrrum miðjumaður Chelsea og skoska landsliðsins.
„Það er magnað fyrir Messi að vinna HM en það eru fjórar vikur. Hann var ekki frábær í deildinni með PSG.“
„Haaland skorar yfir 50 mörk, vinnur deildina, bikarinn og Meistaradeildina. Haaland á að vinna verðlaunin, það verða vafalítið heimskir blaðamenn sem kjósa Messi. Stóra myndin er sú að Haaland átti magnað ár og vann allt.“
Burley ráðleggur Haaland að sniðganga úrslitakvöldið ef hann veit fyrir víst að hann vinni ekki verðlaunin.