Um er að ræða fyrsta tímabil Þjóðadeildarinnar í kvennaflokki en Ísland er í A-deild.
Ísland mætir Wales á Laugardalsvelli föstudaginn 22. september kl. 18:00 og Þýskalandi á Ruhrstadion þriðjudaginn 26. september kl. 16:15. Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á RÚV.
Það ráku margir upp stór augu þegar þeir sáu að markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir er í hópnum, en hún tilkynnti í vetur að hún væri hætt í knattspyrnu. Hún tók hanskana þó fram í sumar og spilaði einn leik með Val á dögunum.
„Mér fannst vanta reynslu í markmannshópinn. Mér fannst hún vera góður stuðningur til að hafa inni í teyminu og hjálpa hinum leikmönnunum að takast á við þetta. Svo er hún líka til taks fyrir okkur og á möguleika á að spila,“ segir Þorsteinn um það.
Steini um komandi leiki
Það hafa orðið töluverðar breytingar á leikmannahópnum undanfarið. Reynsluboltar hafa hætt, meiðst eða eru óléttar.
„Að stærstum hluta til er þetta eðlileg þróun. Liðið var orðið frekar gamalt og meðalaldur hár. Auðvitað viltu samt að þetta gerist aðeins hægar. En mér finnst okkur samt hafa tekist vel á við þetta og úrslit þokkalega góð.“
Þorsteinn er sáttur með að Þjóðadeildin, sem hefur verið spiluð í karlaflokki undanfarin ár, hafi verið tekin upp kvennamegin líka.
„Undanfarin ár höfum við ekki endilega alltaf verið að spila við nógu góðar þjóðir til að þróa okkur. Ég held að það hjálpi okkur að spila við sterkari andstæðinga.“
Þorsteinn fer með miklar væntingar inn í leikina gegn Wales og Þýskalandi.
„Við ætlum að vinna þá báða. Við gerum okkur grein fyrir að inni í leikjunum sjálfum gæti þetta verið mjög ólíkt. Við vitum að Þjóðverjar gætu verið meira með boltann á móti okkur og við á móti Wales. En velska liðið er mjög gott. Þetta eru flest allt leikmenn sem spila í ensku úrvalsdeildinni.“
Ítarlega er rætt við Þorstein í spilaranum hér ofar.