Nicas Kjeldsen yfirmaður fótboltamála hjá Lyngby segir algjörlega óvíst hvort félagið geti gengið frá samningi við Gylfa Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór hefur undanfarnar vikur skoðað möguleika sína í fótboltanum en vegna meiðsla hefur hann ekki tekið ákvörðun.
Lyngby í Danmörku þar sem Freyr Alexandersson er þjálfari er einn af þeim möguleikum sem eru á borði Gylfa ef hann ákveður að byrja aftur í fótbolta.
„Það er of snemmt að ræða þetta því við vitum ekki hvort þetta sé raunhæft, það er alltof margt í þessu sem við vitum ekki enn,“ segir Kjeldsen við danska fjölmiðla og Fótbolti.net segir frá.
Gylfi hafði mætt á æfingar með Val í sumar en fann fyrir meiðslum þar og hefur síðan þá ekki æft með liðinu, Valur hefur áhuga á að semja við Gylfa ef hann ákveður að byrja aftur í fótbolta.
Gylfi verður 34 ára gamall í næsta mánuði en hefur ekki spilað fótbolta í rúm tvö ár. Hjá Lyngby eru þrír íslenskir leikmenn, Þeir Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Finsson og Sævar Atli Magnússon.