Rodri, leikmaður Manchester City, hefur áhyggjur af því hversu marga leiki toppliðin á Englandi þurfa að spila á stuttum tíma.
Rodri þekkir það manna best en hann fær nánast aldrei hvíld hjá Man City undir stjórn Pep Guardiola enda einn allra mikilvægasti leikmaður liðsins.
Spánverjinn segir að það sé óheilbrigt fyrir leikmenn að spila allt að 60 leiki á tímabili en er einnig þakklátur Pep sem gefur leikmönnum mikinn skilning.
,,Ef ég á að vera hreinskilinn þá fæ ég aldrei nógu mikla hvíld. Ég er nokkuð góður eftir að hafa fengið mánuð fyrir sjálfan mig,“ sagði Rodri.
,,Við fengum gott frí og erum með stjóra sem gerir allt fyrir okkur svo við náum okkur að fullu.“
,,Ég held að við höfum byrjað undirbúningstímabilið seinast af öllum liðum deildarinnar því hann skilur að hvíld er mikilvæg.“
,,Ég man ekki nákvæmlega hversu marga leiki ég spilaði á síðustu leiktíð en ég ræddi við stjórann og félagið því að byrja 57 eða 59 leiki er ekki heilbrigt.“