Louis Saha, fyrrum leikmaður Manchester United og Everton, hefur nefnt þann stjóra sem hann telur líklegastan til að fá sparkið fyrstur í ensku úrvalsdeildinni.
Tvær vikur eru í að enska deildin hefjist að nýju en Saha hefur ekki of mikla trú á Ástralanum Ange Postecoglou.
Postecoglou var ráðinn stjóri Tottenham í sumar en hann hafði fyrir það náð góðum árangri með Celtic.
Saha telur að Ástralinn sé að labba inn í erfitt starf þar sem framtíð aðalmanns liðsins, Harry Kane, er í mikilli óvissu.
,,Það er erfitt að svara þessari spurningu. Starfið hjá Tottenham er erfitt og við höfum séð marga toppstjóra lenda í vandræðum þar,“ sagði Saha.
,,Ef liðið byrjar ekki vel undir Postecoglou þá tel ég að hann verði fljótt undir pressu. Staðan með Harry Kane er enn óljós og spurningamerkin eru mörg. Hann er fyrsta nafnið sem kemur til huga til að fá sparkið.“