Það var svakaleg harka í æfingaleik Manchester United og Wrexham í Bandaríkjunum í nótt.
Það var spilað í San Diego United tefldi fram unglingaliði í leiknum þar sem liðið mætir Real Madrid í Houston næstkomandi nótt.
D-deildarlið Wrexham vann leikinn 1-3.
Sem fyrr segir var mikil harka og fékk Daniel Gore til að mynda að sjá rautt spjald. Hann átti þó ekki grófasta brot leiksins.
Það var markvörðurinn Nathan Bishop sem braut svo illa á Paul Mullin, stjörnu Wrexham, að hann þurfti súrefni og að fara á sjúkrahús.
Mullin greindi þó frá því á samfélagsmiðlum eftir leik að hann væri í góðu standi.
Bishop fékk á baukinn fyrir atvikið og var baulað hressilega á hann á vellinum.
Þjálfari Wrexham, Phil Parkinson, var brjálaður út í Bishop eftir leik.
„Ég er brjálaður ef ég á að vera hreinskilinn. Þetta var klaufalegt og kærulaust brot í leik á undirbúingstímabili og ég er alls ekki sáttur við þetta. Ég hef ekki séð markvörðinn enn þá og ég held að það sé best fyrir hann að halda sig fjarri okkur því við erum ekki ánægðir með hann.“
Enskir miðlar segja svo í morgunsárið að innan herbúða United sé mikið ósætti með þessi ummæli Parkinson. Hann sé að reyna að blása atvikið upp.
Bishop sjálfur hefur beðist innilegrar afsökunar á samfélagsmiðlum og segir atvikið hafa verið algjört óviljaverk.
Atvikið má sjá hér að neðan.