Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður KR, hefur verið á milli tannanna á sparkspekingum undanfarin sólarhringinn eða svo. Leikmaðurinn er sagður ósáttur eftir að hafa verið skellt á bekkinn í síðasta leik.
Það vakti athygli margra að Thedór Elmar byrjaði á bekknum og kom ekki inn á fyrr en í lokin í 1-2 tapi gegn Víkingi R. á sunnudag.
„Hann er allt annað en sáttur og ég heyri að hann vilji bara fara, hann hafi verið brjálaður þegar hann fékk þessar fréttir,“ sagði Hrafnkell Freyr Ágústsson í þætti Dr. Football í gær.
Kristján Óli Sigurðsson hafði svipaða sögu að segja í Þungavigtinni.
„Hann vill fara,“ sagði hann.
„Dáðasti sonur KR, Kjartan Henry, fór í fyrra og nú vill sá næst dáðasti fara líka.“
Mikael Nikulásson sagði þá í þættinum að svör Rúnars um málið eftir leik hefðu einmitt óneitanlega minnt á svör hans um Kjartan Henry Finnbogason í fyrra, en Kjartan fór auðvitað að lokum ekki í góðu frá KR.
Ekki náðist í Theodór Elmar við vinnslu fréttarinnar.