Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, hefur tjáð sig um hvernig Harry Maguire tók því að missa fyrirliðabandið hjá félaginu.
Erik ten Hag, stjóri Man Utd, ákvað það í sumar að Maguire myndi missa bandið og fer það til Fernandes.
Framtíð Maguire er í mikilli óvissu en hann og Fernandes eru miklir vinir og ræddu málin sín á milli.
Portúgalinn segir að Maguire hafi ekki tekið illa í ákvörðun Ten Hag en viðurkennir að staða hans hjá félaginu sé flókin.
,,Hann óskaði mér til hamingju og sagðist vera ánægður fyrir mína hönd. Ég skil að hans staða hjá félaginu sé ekki sú besta í dag,“ sagði Fernandes.
,,Staðan hlýtur að vera erfið fyrir hann en hann kom upp að mér og óskaði mér til hamingju sem gerir mig glaðan því okkar samband hefur alltaf verið gott.“