Austurríska félagið WSG Tirol fékk ansi skemmtilegar fréttir á dögunum er félagið samdi við strák að nafni Mathew Collins.
Collins er 18 ára gamall og er nokkuð efnilegur en hann kom á reynslu til Tirol og hreif þar þjálfara liðsins, Manuel Ludwiger.
Collins er ekki bara sonur einhvers en hann er sonur söngvarans Phil Collins sem margir ættu að kannast við.
Phil á fimm börn og er Mathew einn af þeim en hann er þekktastur fyrir að vera hluti af enska rokkbandinu Genesis.
Þjálfarinn Ludwiger hafði ekki hugmynd um að sonur Phil væri að sækjast eftir því að koma á reynslu til félagsins en komst að því eftir að hafa ‘gúgglað’ nafn leikmannsins.
,,Við ‘gúgglum’ þá leikmenn sem við tökum inn á reynslu til að kynnast þeirra ferli. Það var aðeins þá sem við komumst að því að Mathew væri sonur Phil Collins!“ sagði Ludwiger.
,,Þetta er engin markaðsbrella. Þetta snýst bara um hversu góður hann er í fótbolta.“