Neil Gibson, þjálfari Connah’s Quay, hefur tjáð sig eftir tap gegn KA í Sambandsdeildinni.
KA vann sannfærandi 4-0 sigur á welska liðinu í tveimur leikjum og mætir írska liðinu Dundalk í næstu umferð.
Akureyringarnir unnu 2-0 heimasigur sem og 2-0 útisigur en þjálfarinn Gibson var á meðal annars ósáttur með dómgæsluna.
Hann segir að 4-0 tap samanlagt gefi ekki rétta mynd af þessum leikjum en KA virtist þó sjaldan vera í vandræðum í viðureigninni.
,,Ég er gríðarlega vonsvikinn, ég tel ekki að lokastaðan gefi rétta mynd af leikjunum yfir tvær viðureignir,“ sagði Gibson.
,,Þeir voru með meiri gæði en við á síðasta þriðjungi en við nýttum ekki okkar tækifæri og fengum mark dæmt af sem átti að vera gott og gilt. Það féll allt gegn okkur í kvöld.“