Stjórnarmaður skoska knattspyrnufélagsins Elgin City gerði heldur betur slæm mistök á dögunum.
Á bak við tjöldin voru menn hjá Elgin City að fagna kærkomnum samstarfssamning við olíufyrirtæki í nágrenninu sem var í eigu annars stjórnarmanns, Stephen Scott.
Scott var greinilega ekki vinsæll á meðal allra þó allir væru til í að þiggja peningana hans á erfiðum tímum fjárhagslega, en samstarfssamningur átti að vera ansi stór.
Einn stjórnarmaður sendi tölvupóst þar sem stóð að Scott gæti „troðið peningunum sínum upp í rassgatið á sér.“ Átti þessi póstur auðvitað alls ekki að fara á Scott en þangað rataði hann.
Scott dró samstarfssamninginn því til baka. „Ég er ekki viðkvæmur en það eru mörk fyrir öllu,“ sagði hann um málið.
Scott fannst afar leitt að þurfa að gera þetta þar sem hann hefur stutt Elgin City allt sitt líf.