Leicester hefur átt skelfilegt tímabil í ensku úrvalsdeildinni. Nú hefur verið ákveð að hætta við kvöldverð félagsins þar sem einhverjir leikmenn fá iðulega verðlaun og þess háttar fyrir tímabilið sem er að líða.
Leicester er í næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, 2 stigum frá öruggu sæti sem stendur. Liðið á þó eftir að spila þrjá leiki, leik meira en Leeds og Everton sem eru í sætunum fyrir ofan.
Hins vegar á Leicester snúna leiki eftir, gegn Liverpool, Newcastle og West Ham. Staðan er því þung.
Brendan Rodgers var látinn fara sem stjóri í síðasta mánuði. Dean Smith tók við en ekki hefur gengið batnað undir hans stjórn.
The Telegraph segir frá því að í ljósi þess hversu alvarleg staða Leicester sé hafi verið ákveðið að fresta umræddum kvöldverði. Hann átti að fara fram í næsti viku.
Falli Leicester niður í B-deildina lækka laun leikmanna frá 35-50%.
Félagið er þegar farið að búa sig undir hið versta. Á bak við tjöldin eru menn þegar farnir að horfa til ungra leikmanna sem væri hægt að sækja til að hjálpa liðinu í B-deildinni á næstu leiktíð.
Það er líklegt að stjörnur á borð við James Maddison og Harvey Barnes verði seldir í sumar. Þá fer Youri Tielemans burt á frjálsri sölu.