Það kom til átaka milli Sadio Mane og Leroy Sane, leikmanna Bayern Munchen, eftir tap liðsins í Meistaradeild Evrópu í gær.
Liðið tapaði 3-0 gegn Manchester City í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum keppninnar.
Sane og Mane rifust fyrst á vellinum og hélt það áfram inni í klefa eftir leik.
Mane kvartaði undan því hvernig Sane hafði talað við sig og endaði með því að hann sló Þjóðverjann í andlitið.
Aðrir leikmenn Bayern þurftu að skerast í leikinn.
Ljóst er að andinn er ekki sérlega góður í leikmannahópi Bayern sem stendur. Liðið féll úr leik í þýska bikarnum á dögunum og er komið langleiðina með að gera slíkt hið sama í Meistaradeildinni eftir úrslit gærdagsins.
Thomas Tuchel tók við sem stjóri Bayern á dögunum og þarf að róa mannskapinn.