Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins og matarbloggari með meiru, heldur fast í séríslenskar matarhefðir.

„Það sem mér finnst svo gaman við matarhefðir almennt, er að þær ramma inn og leggja áherslu á sjarma hvers árstíma fyrir sig og maður hlakkar til að undirbúa og njóta, það veitir manni gleði og það skiptir máli. Borðið er alltaf fullmannað af stórfjölskyldunni á sprengidaginn, við elskum þessa matarhefð. Það hefur þekkst hjá okkur að sprengideginum hefur verið frestað, ef einhver var það upptekinn á deginum sjálfum að hann komst ekki.“

Anna Björk segist ávallt laga baunasúpuna að hætti ömmu sinnar og ljóstrar hér aðferð ömmu sinnar við súpugerðina. Baunasúpan hefur verið í fjölskyldunni í áranna rás og Anna Björk vill helst hafa vænan og feitan síðubita með.

Baunasúpan

Baunirnar eru lagðar í bleyti í kalt vatn í mjög stórum potti, kvöldinu áður en á að sjóða þær. Passið að vatnið fljóti vel yfir baunirnar. Morguninn eftir er vatni bætt í pottinn, ef þarf, og suða látin koma upp á baununum. Froðunni sem kemur við suðuna er fleytt ofan af og hent. Baunirnar eru látnar malla rólega í um eina klukkustund, þar til þær eru alveg maukaðar, hrært í við og við.

Saltkjötið

Það er góð regla að smakka kjötið áður en það fer í pottinn, til að vita hversu salt það er, og skola það vel eða jafnvel leggja það í bleyti í smátíma í kalt vatn í vaskinum, ef það er mjög salt. Það er betra að salta súpuna aðeins eftir á, ef þarf, heldur en að hún sé of sölt í grunninn. Kjötið er sett út í súpuna, suðan látin koma upp og kjötið soðið rólega í súpunni í 40–60 mín. Það þarf örugglega að athuga vatnsmagnið í pottinum og hræra í við og við svo baunirnar brenni ekki í botninum. Ég mæli eindregið með að fullelda saltkjötið og baunirnar að morgni eða kvöldinu áður, ef þú hefur tækifæri til þess, vegna þess að þetta er einn af þessum réttum sem batnar við að kólna og jafna sig og hita svo upp aftur (ath. ekki taka kjötið upp úr súpunni).

Þegar baunasúpan er hituð upp og hún er sjóðheit er gott að smakka hana til og bæta í hana salti eða vatni ef hún er mjög þykk, en hún byrjar að þykkna um leið og hún er komin á diskinn. Svo eru nauðsynlegt að hafa nóg af soðnum íslenskum rófum, kartöflum og gulrótum. Það er leyfilegt að sprengja sig á þessum degi.