Wesley Fofana er við það að ganga í raðir Chelsea fyrir 70 milljónir punda. Hann gengst undir læknisskoðun í dag, en þó ekki í Lundúnum.
Hinn 21 árs gamli Fofana kemur frá Leicester. Hann hafði gert allt til að komast burt og var til að mynda látinn æfa með varaliði félagsins þar sem hugur hans var ekki á réttum stað.
Nú hefur Frakkinn fengið sínu framgengt og mun skrifa undir sex ára samning á Stamford Bridge.
Læknisskoðun Fofana í dag mun fara fram í Bandaríkjunum, heimalandi eigandans Todd Boehly.
Er þetta þar sem Boehly vill ekki taka neina sénsa, þar sem Fofana var lengi frá á síðustu leiktíð sökum fótbrots.
Boehly vill vera viss um að allt sé í standi áður en hann kaupir leikmanninn unga fyrir 70 milljónir punda.