Þættirnir „And Just Like That…“ hófu göngu sína á HBO Max í desember í fyrra. Þeir eru „spin-off“ af vinsælu „Sex and The City“ þáttunum og kvikmyndunum og við fáum að fylgjast áfram með ævintýrum Carrie Bradshaw, Charlotte York-Goldenblatt og Miröndu Hobbes.
Öll fyrsta þáttaröð er komin á streymisveituna og var það ljóst eftir að lokaþátturinn kom út að John Corbett, leikarinn sem fór með hlutverk Aidan Shaw í SATC, yrði ekki í nýju þáttunum eins og aðdáendur reiknuðu með, þar sem hann hélt því fram í viðtali við Page Six í apríl í fyrra.
Sarah Jessica Parker tjáði sig um málið í „Watch What Happens Live With Andy Cohen“.
Hún sagði að John hefði beðið hana afsökunar á því að hafa logið um hlutverk sitt í nýju þáttunum.
„Hann hafði samband og var mjög vingjarnlegur, því hann er herramaður, og baðst afsökunar á að hafa gert þetta í gríni,“ sagði hún.
„Og ég sagði bara: „Nei, nei, nei, ég meina þetta er frjálst land, til að byrja með, og í öðru lagi þá fannst mér þetta skemmtilegt og indælt.“
Leikkonan gaf svo í skyn að John gæti komið fram í næstu þáttaröð. „Ég meina allt er mögulegt,“ sagði hún glettin.
John Corbett lék fyrrverandi unnusta Carrie Bradshaw, Aidan Shaw í upprunalegu „Sex and the City“ þáttunum. Í viðtali við Page Six í fyrra sagði hann: „Ég verð í [nýju þáttunum].“ Hann sagðist jafnframt vera mjög spenntur og að hann myndi leika í þó nokkrum þáttum.
Höfundur þáttanna, Julie Rottenberg, og framleiðandi þáttanna, Michael Patrick King, gagnrýndu ummæli John Corbett harðlega í viðtali við Deadline fyrr í febrúar.
„Hann ætti að vera að biðjast afsökunar. Við sögðum ekki neitt,“ sagði Julie Rottenberg.