fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Líf Didda breyttist þegar hann fór í Hörðuvallaskóla

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 9. júní 2020 17:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjarta móður er fullt af þakklæti í garð nemenda í Hörðuvallaskóla í Kópavogi fyrir það hvernig þeir tóku á móti einhverfum syni hennar er hann hóf nám í skólanum í byrjun árs 2019. Segir móðirin að samnemendur sonar hennar hafi gert sér far um að láta son sinn vera hluta af hópnum og þau hafi tekið hann undir sinn verndarvæng.

Diddi eftir útskriftina

„Diddi er mjög einhverfur, mjög til baka félagslega og stríðir við mikla námsörðugleika og þroskaröskun. En hann er líka einstaklega sjarmerandi náungi með þægilega næveru,“ segir Kristín Gígja Sigurðardóttir, móðir Didda, sem heitir fullu nafni Sigurður Einar Hákonarson, í samtali við DV. Hún er svo snortin yfir viðmóti skólafélaga Didda í hans garð að hún skrifaði kveðju til foreldra þeirra í íbúahóp Kórahverfis á Facebook eftir útskrift Didda frá skólanum:

Til foreldra barna sem voru að útskrifast úr 10. bekk í Hörðuvallaskóla.

Sonur minn Diddi var einnig að útskrifast úr 10. bekk. Við fluttum í hverfið í febrúar 2019 og byrjaði hann þá í Hörðuvallaskóla.

Forsaga Didda er sú að hann greindist með einhverfu 18 mánaða gamall. Hann er hljóðlátur, ofboðslega indæll og góður drengur. Hann hefur þjáðst af kvíða og hefur átt stundum erfitt í gegnum lífið og ekki eignast marga vini.

Börnin ykkar í 10. bekk tóku hann algjörlega undir sinn verndarvæng, hlógu með honum og töluðu við hann í hléum í skólanum, gáfu honum endalaus „high five“ á göngum skólans, dönsuðu með honum á böllum og gáfu honum titilinn Danskóngur 10. bekkjar á árshátíðinni.

Upplifun sonar míns í 9. og 10. bekk var betri en öll hin 8 árin hans í grunnskóla og er það mest megnis börnunum ykkar að þakka.

Ég er ótrúlega þakklát fyrir börnin ykkar og þökkum við Diddi fyrir samveruna og að sama skapi óskum við ykkar börnum til hamingju með árangurinn og bjarta framtíð.

Kveðja

Diddi & mamman

Eins og fram kemur í pistli móðurinnar var Diddi kjörinn danskóngur tíunda bekkjar á árshátíð skólans og segir Kristín að það hafi að öllu leyti verið framtak nemendanna í tíunda bekk. Fór Diddi upp á svið og tók við viðurkenningarskjali.

Kristín Gígja, móðir Didda

Fjölskyldan bjó í Svíþjóð á árunum 2015 til 2018 en fluttist síðan aftur til Íslands. Diddi hóf nám í Hörðuvallaskóla í byrjun árs 2019 og tók því hálfan níunda bekk og allan tíunda bekk í skólanum. Það er ekki auðvelt fyrir nemendur sem hafa búið erlendis að koma heim til Íslands og fara í nýjan skóla, hvað þá nemendur sem stríða við mikla einhverfu. Þetta tókst hins vegar með miklum ágætum í tilfelli Didda sem hefur átt miklar gleðistundir í skólanum.

„Það er ekki bara að hann og aðrir nemendur séu að segja mér frá þessu, heldur hef ég fengið sent myndband af ballinu þar sem krakkarnir hópast í kringum hann og dansa við hann í heilan klukkutíma. Í útskriftinni gengu allir krakkarnir að honum, gáfu honum „high five“ og óskuðu honum til hamingju. Fyrir mig sem móður einhverfs drengs sem búinn er að eiga erfitt í gegnum tíðina þá er þetta alveg einstakt og það var mögnuð upplifun fyrir mig að sjá með eigin augum á útskriftinni allan þennan kærleika sem þarna ríkir.“

Diddi er ljúfur og glaðvær piltur

Kærleiksríkt umhverfi

Kristín segir að nokkrir samverkandi þættir hafi valdið því hvað vel hafi tekist til með skólagöngu Didda í Hörðuvallaskóla. Áður hefur verið nefnt að hann hefur mjög sjarmerandi persónuleika, en fleira kemur til. „Yngri bróðir hans, sem er í áttunda bekk, hefur alltaf verið hans hægri hönd og hann passaði vel upp á hann. En hann varð líka fljótt var við það að það voru þarna strákar í tíunda bekk sem tóku honum svona rosalega vel. En svo eru þetta bara svo frábærir krakkar, einlæg og góð.“

Kristín er heilluð af andanum í Hörðuvallaskóla og ber kennurum vel söguna: „Það er aðdáunarvert að fylgjast með því hvað kennararnir eru persónulegir við nemendur, hvað samband nemenda og kennara er persónulegt í skóla þar sem eru um 1.000 nemendur. Kennararnir eru skilningsríkir og krakkarnir eru ekki öll sett undir sama hatt heldur fær hver og einn að njóta sín og byggja á sínum styrkleikum.“

Sem vænta má hefur pistli Kristínar í FB-hópi íbúa Kórahverfis verið vel tekið og foreldrar samnemenda Didda kunna vel að meta hlý orð: „Ég vildi þakka fyrir okkur og koma þessu til skila til foreldra þessara krakka, að þau fengju að vita hvað vel börn þeirra hafa komið fram við son minn og að við kunnum að meta það,“ segir Kristín.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt