fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
433Sport

Ekki múkk um stelpurnar og Kristján er ósáttur – „Þetta er bara bullshit“

Sóley Guðmundsdóttir
Sunnudaginn 24. maí 2020 20:00

Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er búið að kynna markaþátt og uppgjörsþátt fyrir Pepsi Max deild karla en ekki hefur heyrst múkk um kvennadeildina. Þetta er eins og þetta hefur verið undanfarin ár, öll umfjöllun um kvennadeildina kemur á eftir karladeildinni. Ég sé ekki hver ástæðan gæti verið fyrir því,“ segir Kristján Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu. Stöð 2 Sport ákvað fyrir nokkru að sýna alla leikina í fyrstu tveimur umferðum Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu. Samkvæmt Eiríki Stefáni Ásgeirssyni, forstöðumanni íþrótta hjá Sýn, var ákvörðunin tekin til að koma til móts við þá staðreynd að ekki verður hægt að fá marga áhorfendur á völlinn eins og staðan er núna.

Það sama mun ekki gilda um fyrstu tvær umferðirnar í Pepsi Max deild kvenna. Ef tímabilið síðasta sumar er skoðað má sjá að 52 prósent leikja í Pepsi Max deild karla voru sýnd á Stöð 2 Sport. Þetta gerir tvo til fjóra leiki í hverri umferð. Aðeins 21 prósent leikja í Pepsi Max deild kvenna var sýnt, sem samsvarar einum leik í umferð.

Vilja gera meira fyrir konurnar
„Við erum með minnst einn leik í hverri umferð í Pepsi Max deild kvenna og ætlum að sinna deildinni betur en áður, með fleiri og stærri útsendingum. Sýndir verða að minnsta kosti tveir leikir í fyrstu umferðinni en ekki allir,“ segir Eiríkur. Hann segir það koma til greina að sýna fleiri leiki en nefnir að sumir leikjanna séu á sama tíma sem geri þeim erfitt fyrir. Leikirnir í fyrstu tveimur umferðunum í Pepsi Max deild karla voru skipulagðir þannig að þeir verða allir hver á sínum tímanum svo að mögulegt sé að sýna þá alla.

Umræðan um að skipuleggja fyrstu tvær umferðirnar í kvennadeildinni eins og í karladeildinni fór aldrei af stað, að sögn Eiríks. Hann segir jafnframt að Stöð 2 Sport vilji gera meira fyrir konurnar en hefur verið. „Við ætlum að efla umfjöllun og breyta nálguninni að þættinum okkar um kvennadeildina frá fyrri árum.“

Stelpur eða strákar skiptir ekki máli
Kristján, þjálfari Stjörnunnar, er sjálfur fremur nýr í kvennaboltanum. „Það hefur blundað í mér að þjálfa í kvennaboltanum. Ég hef búið í Garðabænum í 17 ár með þetta geggjaða kvennalið við hliðina á mér, sem ég hef fylgst vel með. Þegar ég þjálfaði stundum stelpur á einstaklingsæfingum hjá Val, fann ég skuldbindinguna sem konur koma með inn í fótboltann. Ég horfi á þetta sem ákveðið starf, að vera fótboltaþjálfari, og það skiptir ekkert máli hvort þetta eru stelpur eða strákar sem ég þjálfa.“

Eftir að hafa byrjað að þjálfa konur, skilur Kristján betur það sem þær hafa verið að tala um og berjast fyrir. „Ég þekki betur þeirra hlið og hvernig þær vinna og hugsa. Ég veit líka hvernig talað er í karlaboltanum og hvernig nálgunin gegn kvennafótbolta er þar. Núna veit ég betur hvernig konur nálgast karlaboltann og sinn eigin bolta.“

Kvennadeildin fylgir með
„Stærsta vandamálið er að samstarfsaðilinn gerir samning við Stöð 2 Sport, um að fjalla um efstu deildir karla og kvenna. Þar er einblínt á karladeildina þrátt fyrir að kvennadeildin sé í sama pakka. Kvennadeildin fylgir með, það er gallinn. Vandamálið liggur ekki endilega hjá Stöð 2 Sport, heldur hjá samstarfsaðilanum,“ segir Kristján.

Vill hann að samningnum við Ölgerðina sé rift og að fenginn sé nýr samstarfsaðili fyrir kvennadeildina. Kristján veltir því fyrir sér hvers vegna kvennadeildin sé ekki auglýst eins mikið og karladeildin, hvers vegna útsendingarnar eru ekki eins margar og svo framvegis.

„Það er alltaf hægt að segja að það sé ekki eins mikill áhugi á kvennadeildinni og karladeildinni. Það verður áhugi ef þú setur eitthvert sjónvarpsefni af stað og byrjar að hugsa vel um það, þá kviknar áhuginn. Þessi rök halda ekki. Eins og þetta er núna er verið að búa til áhuga á karladeildinni en ekki kvennadeildinni.“

Svo tölum við um laun Kristján telur vandann liggja hjá Ölgerðinni og KSÍ. „Ef samstarfsaðilinn væri að
styrkja tvær deildir, en ekki bara eina, þá myndi samstarfsaðilinn, sem í þessu tilviki er Ölgerðin, tala við KSÍ og Stöð 2 Sport. Hann myndi ekki sætta sig við að það væri stanslaust verið að fjalla um karladeildina, en ekki kvennadeildina.“

Kristján segir kynjajafnrétti vera mikið í umræðunni og að konur séu í sókn. „Það eru einstaklingar og fyrirtæki úti í bæ sem segjast vilja styrkja konur. Hvar eru þessar raddir og af hverju koma þær ekki fram? Koma þær jafnvel frekar fram ef við fáum annan samstarfsaðila á kvennadeildina og koma þessir aðilar og sýna í verki það sem þeir eru að segja? Sýnið okkur virðingu fyrst, þegar hún er komin og umfjöllunin er komin á alvöru plan og þegar fólkið sem segist vilja standa við bakið á okkur er komið fram, þá fyrst skulum við tala um laun og eitthvert svona bull. Komið með virðinguna og höfum þetta í lagi. Ekki bara tala um þessa hluti,“ segir Kristján og vitnar um leið í Söru Björk landsliðsfyrirliða. „Af hverju er sjálfgefið að það sé meiri áhugi á karlafótbolta heldur en kvenna, eru ekki jafn margar konur og karlar í heiminum? Þetta er bara bullshit!“

Þarf að skapa sama vinnuumhverfi
„Af hverju á meistaraflokkur kvenna alltaf að æfa á eftir körlunum? Það er vegna þess að það er búið að skapa körlunum það vinnuumhverfi að þeir geta mætt fyrr. Stelpurnar koma svo hlaupandi inn á æfingu klukkan fimm. Það þarf bara að skapa þetta vinnuumhverfi fyrir konurnar og ég efast ekki um að þær myndu rækta það jafn vel og strákarnir, ef ekki betur.“

Til að breyta þessu segir Kristján að þau fyrirtæki sem eiga peninga fyrir auglýsingum verði að stíga fram. „Þau fyrirtæki og einstaklingar sem hafa talað um að þau vilji fara meira inn í kvennageirann, verða að gera það. Knattspyrnusambandið þarf líka að taka alvöru ákvarðanir. Í vetur átti bara að rifta þessum samningi við Ölgerðina. Umfjöllunin um kvennaboltann er miklu minni en um karlaboltann. Því meiri umfjöllun, því meiri áhugi.“

Reyna að aðskilja deildirnar
Íslenskur toppfótbolti (ÍTF) fékk samningsréttinn við Sýn (áður 365 miðlar) úr höndum KSÍ. Samningurinn var gerður árið 2015 og gildir út tímabilið 2021. Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF, segir að áhugi sé á að breyta samningnum þegar hann rennur út. Honum líst vel á að aðskilja kvenna- og karladeildirnar og hafa aðskilda styrktaraðila. „Við höfum verið að horfa á hvernig þetta er gert erlendis. Eins og enska úrvalsdeildin heitir bara „Enska úrvalsdeildin“ og svo eru nokkrir styrktaraðilar á deildinni. Hér ætti karladeildin að heita „Úrvalsdeild karla“ og kvennadeildin „Úrvalsdeild kvenna“ og svo væru bara nokkrir styrktaraðilar á hvorri deild. Sama hvort það væru sömu eða sitt hvorir, peningurinn væri að minnsta kosti eyrnamerktur hvorri deild fyrir sig. Við munum reyna að gera þetta svona.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Launakostnaður opinberaður og niðurstaðan er áhugaverð – Ótrúlegur munur milli félaga

Launakostnaður opinberaður og niðurstaðan er áhugaverð – Ótrúlegur munur milli félaga
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Aðdáendur í áfalli eftir að nýju treyjunni var lekið – Sjáðu myndirnar

Aðdáendur í áfalli eftir að nýju treyjunni var lekið – Sjáðu myndirnar
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Hollywood stjarnan agndofa í beinni útsendingu – Sjáðu hver birtist á skjánum

Hollywood stjarnan agndofa í beinni útsendingu – Sjáðu hver birtist á skjánum
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Ajax setur það í forgang að ráða Ten Hag aftur til starfa í sumar

Ajax setur það í forgang að ráða Ten Hag aftur til starfa í sumar
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Sjáðu markið – Albert skoraði sitt fjórtánda deildarmark í góðum sigri

Sjáðu markið – Albert skoraði sitt fjórtánda deildarmark í góðum sigri
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Aron Jó lítillega meiddur og vonast til að ná næsta leik

Aron Jó lítillega meiddur og vonast til að ná næsta leik
433Sport
Í gær

Liverpool planar næsta tímabil með Mo Salah í sínum röðum

Liverpool planar næsta tímabil með Mo Salah í sínum röðum
433Sport
Í gær

Gary Neville telur að þetta sé stærsta vandamál Chelsea

Gary Neville telur að þetta sé stærsta vandamál Chelsea