Sebastian Villa, leikmaður Boca Juniors og landsliðsmaður Kólumbíu er sakaður um hrottalegt heimilisofbeldi.
Daniela Cortes, sem hefur verið í sambandi með Villa í fjölda ára segir hann ofbeldismann og birtir fjölda mynda af sér þar sem hún er með áverka.
Cortes birtir átta myndir af sér, þar má sjá hana með sár á höndum, löppum og í andliti. Hún segir sárin vera eftir ofbeldi frá Villa.
,,Ég hef í tvö ár búið við mikla erfiðleika, ég fyrirgaf og átti von á breytingum. Það gerðist aldrei. Þetta hefur verið mér þungbært,“ skrifar Cortes.
,,Ég óttast þennan mann, manninn sem birtist ykkur í sjónvarpi og talar eins og eðlilegur maður. Sannleikurinn er hins vegar öðruvísi. Hann er ofbeldismaður, það vita þeir sem standa honum næst.“
,,Þetta er hinn raunverulegi Sebastian Villa, maður sem lemur konur. Ég er ekki sú eina.“