Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því fyrir skömmu að fimm smit hefðu greinst á Vestfjörðum frá því í gær.
Í Facebook færslu lögreglunnar segir að afar mikilvægt sé fyrir fólk að fylgja fyrirmælum. Þá er einnig farið yfir tölfræði smita á norðanverðum Vestfjörðum.
„Fimm smit hafa bæst við síðan í gær á Vestfjörðum. Þau smit voru hjá einstaklingum í Bolungarvík og Ísafirði. Smitrakning stendur yfir.
Það er algjör forsenda þess að hægt verði að slaka á þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til á norðanverðum Vestfjörðum, að allir fari eftir þeim fyrirmælum sem sett hafa verið fram. Við þurfum sjálf að fara eftir þeim og e.a. leiðbeina hvort öðru í þeim efnum. Handþvottur, sprittun, halda tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga, virða leiðbeiningar er varða sóttkví, einangrun og þ.h.
Eins og komið hefur fram í fréttum hafa aðeins 6 sýni, af þeim 1713 sýnum sem Íslensk erfðagreining tók hjá einstaklingum á norðanverðum Vestfjörðum í vikunni, reynst jákvæð. Það er um 0,3%. Enn eru þó eftir að berast endanlegar niðurstöður þaðan. Þessi sýni frá Íslenskri erfðagreiningu eru inn í neðangreindum töflum.
Enn er minnt á fyrirmælin um takmörkun fjölda einstaklinga í hóp, en hann miðast við 5 manns, nema ef um er að ræða fjölskyldu sem býr á sama heimili. Þetta á við um norðanverða Vestfirði, Bolungarvík, Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhrepp. Þessi fyrirmæli ganga lengra en annars staðar á landinu og gilda til og með 26. apríl nk.“