fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Bauð föngum afslátt af dómi ef þeir samþykktu ófrjósemisaðgerð

Kærumál í burðarliðnum – „Glæpamenn ættu ekki að fjölga sér“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 26. ágúst 2017 22:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Smábærinn Sparta í Tennessee er lentur í kastljósi fjölmiðla vegna aðgerða dómarans Sam Benningfield. Benningfield, sem sér um smáglæpi í réttarsal bæjarins, tók upp á því að bjóða föngum upp á 30 daga styttingu afplánunar gegn því að þeir myndu gangast undir ófrjósemisaðgerðir. Málið hefur vakið mikla reiði en afhjúpar jafnframt skoðanir sem eiga sér djúpar rætur í Bandaríkjunum.

Þurfti ekki að hugsa sig um

Deonna Tollison stóð fyrir framan Benningfield síðastliðið vor. Hún var háð ópíumskyldum lyfjum og hafði brotið skilorð. Sífelld brot og atvinnuleysi voru ástæðan fyrir því að Benningfield dæmdi hana til fangelsisvistar en henni stóð til boða að stytta vistina gegn því að þiggja ófrjósemislyfið Nexplanon.

Tollison þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um. „Ég er einstæð móðir þriggja fallegra stúlkna og nýorðin amma. Móðir mín og systir mín eru fatlaðar. Þær reiða sig allar á mig vegna þess að ég er sú eina með ökuskírteini.“

Þegar hún kom í fangelsið voru þar eyðublöð þar sem fangar gátu samþykkt aðgerð. Nexplanon-lyfjameðferð fyrir konur, sem virkar í fjögur ár, en varanleg skurðaðgerð fyrir karla. Tollison var ein 30 kvenna sem skráðu sig og 38 karlar gerðu slíkt hið sama. Samanlagt 68 fangar af 221 eða um 30 prósent. Nexplanon-stauturinn, sem er á stærð við eldspýtu, var settur undir húð á vinstri upphandlegg Tollison.

Ekki raunverulegt val

Skömmu eftir að Benningfield bauð upp á þessar aðgerðir fóru gagnrýnisraddir að heyrast. Margir stigu fram og fordæmdu Benningfield, þar á meðal þingmenn Tennessee-fylkis, ríkissaksóknari og aðrir dómarar. Hann var sagður leika guð og stíga langt út fyrir hlutverk sitt. Þrýstingurinn var slíkur að verkefninu var hætt eftir aðeins sex vikur og áður en nokkur karlfangi lagðist undir hnífinn.

Benningfield sagði: „Viðbrögðin komu mér algjörlega í opna skjöldu. Öllum var sama um þetta þangað til myndavélarnar mættu á svæðið.“ Hann segist einungis hafa verið að hugsa um börnin og tryggja að sem fæst myndu fæðast vanheil vegna eiturlyfjanotkunar móðurinnar. „Ég áttaði mig á því að margar konurnar sem ég dæmdi til fangelsisvistar voru þær sömu og ég tók börnin af þegar ég vann hjá fjölskylduréttinum, af því að þær voru háðar eiturlyfjum.“

„Viðbrögðin komu mér algjörlega í opna skjöldu.“
Sam Benningfield „Viðbrögðin komu mér algjörlega í opna skjöldu.“

Hann sagðist ekki hafa viljað stjórna því hverjir mættu eignast börn. Föngum hafi einnig verið boðið að sækja fyrirlestur í fangelsinu um áhrif eiturlyfjaneyslu á fóstur. Fyrir slíka viðveru voru tveir dagar teknir af afplánun. Enginn hafi verið þvingaður til neins.

Alexandra Stern, sérfræðingur í kynbótum við Michigan-háskóla, bendir hins vegar á að fyrir fangana sé þetta ekki frjálst val. Þeir séu í svo slæmri stöðu að þeir neyðist til að taka boðinu. „Þess vegna eru ófrjósemisaðgerðir bannaðar í fangelsum.“

Þrátt fyrir mikla gagnrýni utan frá þá fékk Benningfield töluverðan stuðning frá bæjarbúum í Spörtu. Í bænum og sveitinni þar um kring býr að mestu leyti hvítt efnalítið fólk, íhaldssamt og kirkjurækið. Þetta er svæði sem þrífst á nautgriparækt og verksmiðjuiðnaði.

Christopher Sapp, sem rekur tölvuverslun í bænum, á fósturdóttur í fangelsi sem tók þátt í verkefninu. Hann segir: „Mér finnst þetta ábyrgt af henni. Fíkn ópíumlyfja er skelfileg á þessu svæði. Allar fjölskyldur á svæðinu þekkja þennan vanda.“

Benningfield sýndi þau fjölmörgu stuðningsbréf sem hann hefur fengið. Eitt þeirra er dæmigert fyrir viðhorf bæjarbúa og í því stendur „Glæpamenn ættu ekki að fjölga sér“.

Kynbótahreyfingin

Kynbætur í Bandaríkjunum eiga sér langa sögu. Einn fyrsti stuðningsmaðurinn var Alexander Graham Bell, uppfinningamaður símans, sem taldi heyrnarleysi vera arfgengt og vildi því banna heyrnarlausum að giftast.

Upp úr aldamótunum 1900 börðust margir fyrir kynbótum, til dæmis prófessorar í virtum háskólum og Theodore Roosevelt forseti. Þessi hreyfing byggði stefnu sína á hugmyndum Platons og Charles Darwin. Fylki fóru að lögleiða ófrjósemisaðgerðir á „óæskilegu fólki“ í stórum stíl. Árið 1935 voru slíkar aðgerðir framkvæmdar í 29 fylkjum, flestar í Kaliforníu og í Suðurríkjunum. Einnig var sumum hópum meinað að giftast, svo sem þroskaskertum og flogaveikum.

Flestar aðgerðirnar voru framkvæmdar á geðsjúkrahúsum, rúmlega 60.000 talsins. Fangelsi og aðrar refsistofnanir framkvæmdu einnig slíkar aðgerðir. Dæmi eru um að unglingar allt niður í 14 ára aldur hafi verið neyddir til að leggjast undir hnífinn. Aðrir hópar eins og fangar, fátækt fólk, einstæðar mæður á velferðarstyrkjum og samkynhneigðir hafa verið skotspænir kynbótahreyfingarinnar í gegnum tíðina.

Kynbætur tengdust einnig kynþáttahyggju og vildu margir úr hreyfingunni nota þær á innflytjendur af „óæðri kynstofnum“. Í upphafi áttunda áratugarins voru frumbyggjakonur teknar kerfisbundið úr sambandi. Aðgerðirnar voru framkvæmdar þegar þær komu í botnlanga- eða keisarauppskurði og þeim var aldrei sagt frá þessu. Sumar fengu ekki læknisaðstoð nema þær samþykktu ófrjósemisaðgerð. Einn af helstu stuðningsmönnum kynbóta á seinni tímum var forsetinn Richard Nixon en á níunda áratugnum lagðist þessi siður að mestu leyti af í Bandaríkjunum.

Aukaverkanir og kæra

Kristi Seibers er ein af þeim sem þáðu Nexplanon-meðferð í fangelsinu í Spörtu. Hún var þá í fyrsta sinn innan múra, fyrir brot á skilorði. Seibers, sem er barnlaus, sagðist einungis hafa hugsað um að losna fyrr út. Hún fann strax fyrir aukaverkunum lyfsins svo sem krömpum, sýkingu í leggöngum, þyngdaraukningu og minni kynhvöt. Þar að auki fékk hún ekki afsláttinn af dómnum.

„Fólk gerir hvað sem er til að losna úr fangelsi“

Seibers er ein af þeim sem stefnt hafa yfirvöldum í fangelsinu í Spörtu fyrir aðgerðirnar, en 16 konur hafa þegar ákveðið að taka þátt og fleiri munu væntanlega bætast í hópinn. Margar þeirra höfðu aldrei neytt eiturlyfja og sumar voru komnar af barneignaraldri. Þegar þær vildu losna við Nexplanon-stautinn var þeim sagt að það kostaði 250 dollara eða 60 daga bið.

Deonna Tollison er laus úr fangelsi núna og sér eftir því að hafa tekið þátt. „Mér líður eins og við höfum verið tilraunadýr. Fólk gerir hvað sem er til að losna úr fangelsi.“ Þegar hún samþykkti ófrjósemisaðgerðina þá var hún ekki að hugsa um eigin líkama eða rétt sinn til að fjölga sér. Hún var aðeins að hugsa um þá sem reiddu sig á viðveru hennar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Inga Sæland ekki sátt: „Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki tími kvíða og óörygg­is“

Inga Sæland ekki sátt: „Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki tími kvíða og óörygg­is“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sigríður Dögg segir að RÚV þurfi að gera betur: „Lítilsvirðing gagnvart konum á ekki að líðast“

Sigríður Dögg segir að RÚV þurfi að gera betur: „Lítilsvirðing gagnvart konum á ekki að líðast“
Fréttir
Í gær

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun
Fréttir
Í gær

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda