Jæja-samtökin kalla eftir því að ríku fólki verði útrýmt á Ísland. Ljóst er að einhver í samtökunum hefur séð kvikmyndina um Jókerinn því með þeim skilaboðum fylgir skjáskot úr myndinni. Líkt og samtökin segja þá snýst myndin meðal annars um að auðvaldið búi til sína eigin óvini. Margir hafa gengið svo langt að segja að myndin sé ákall um byltingu.
Jæja-samtökin segja að skilaboð Jókersins séu augljós þeim sem vilja sjá þau. „Jókerinn—Skilaboðin í myndinni gætu ekki verið skýrari: Almenningur á að beina reiði sinni gegn hinum ríku sem hafa þröngvað upp á okkur óréttlátu samfélagi kapítalisma, fátæktar og ójafnaðar,“ segir í færslunni sem samtökin deildu í gær.
Nokkrir virðast líta á færsluna sem hvatningu til ofbeldis. „Sko, ég skil hvað er átt við, en þessi framsetning getur mjög auðveldlega misskilist sem hvatning til ofbeldis, skrifar til að mynda Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata. Jæja-samtökin segja henni ef hún sé ósátt þá eigi hún að senda leikstjóra Jókersins bréf. Samtökin segja svo: „Þið viljið bara hneykslast yfir framsetningu en ekki ræða hugmyndir, greiningar, hugmyndafræði. Ég veit ekki á hvaða braut þú ert en Píratar eru greinilega ekki sá róttæki flokkur sem hann stefndi á að vera.“
Einn maður spyr svo hvernig eigi að fara að því að útrýma ríku fólki. „Sköttum fyrst en svo með breytingum á efnahagskerfinu til þess að koma í veg fyrir að það sé mögulegt að verða ofurríkur. Lýðræðislegt efnahagskerfi sem dreifir gæðunum með jafnari hætti,“ svara Jæja-samtökin.
Í dag skrifa samtökin svo athugasemd við færsluna þar sem þau skýra nánar hvað þau eigi við með þessu: „Síðunni hafa borist kvartanir yfir „framsetningu“. Jæja vill útrýma fátækt og líka milljarðamæringum. Með því að skatta ríkt fólk er hægt að útrýma fátækt í landinu. Að því leyti er Jæja sammála Bernie Sanders sem sagði nýlega að milljarðamæringar ættu ekki að vera til. Ekki með því að myrða þá heldur með því að skatta þá. Þeir sem kjósa að túlka þennan póst sem hvatningu til ofbeldis verða einfaldlega að eiga slíkt við sjálfan sig.“