fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Matur

Uppáhaldsnammið endurgert í eldhúsinu heima

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 29. september 2019 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórar sögufrægar sælgætistegundir búnar til heima og það er auðveldara en þú heldur.

Bounty

Um það bil 15 stykki

Hráefni:

200 g kókosmjöl
1 dós sæt dósamjólk („sweetened condensed milk“ – 397 g)
200 g dökkt súkkulaði

Aðferð:

Blandið kókosmjöli og mjólkinni vel saman. Mótið síðan litlar, nú eða stórar) lengjur úr blöndunni og raðið lengjunum á plötu eða disk sem búið er að klæða með smjörpappír. Setjið plötuna eða diskinn inn í ísskáp og kælið í um klukkustund. Bræðið súkkulaðið en þið getið auðvitað notað mjólkursúkkulaði ef þið viljið. Hér finnst mér best að dýfa toppinum á Bounty-inu í súkkulaðið, setja lengjuna aftur á smjörpappír og leyfa toppinum að storkna. Síðan að dýfa botninum í súkkulaði og leyfa súkkulaðinu aftur að storkna. Þið getið auðvitað súkkulaðihúðað Bounty-ið eins og þið viljið. Skiptir svo sem litlu máli hvernig þetta lítur út því bragðið er aðalmálið. Og bragðið er gott!

Það er ekkert mál að búa sjálfur til Bounty. Mynd: Sunna Gautadóttir

Ferrero Rocher

Hráefni:

1 bolli mulið ískex (helst með súkkulaðifyllingu)
1 bolli saxaðar heslihnetur
1/2–3/4 bolli mjúkt Nutella
1/3 bolli brætt dökkt súkkulaði
1/2 tsk. brætt smjör
1/3 bolli saxaðar heslihnetur

Aðferð:

Blandið ískexi, 1 bolla af heslihnetum og Nutella vel saman í skál. Blandan á að vera klístruð. Skellið blöndunni í ísskáp í 30 mínútur og leyfið henni að jafna sig. Búið til litlar kúlur úr blöndunni og raðið á smjörpappírsklæddan disk. Setjið þær inn í frysti í 15 mínútur. Bræðið dökka súkkulaðið og smjörið saman í örbylgjuofni í þrjátíu sekúndur í senn. Hrærið alltaf á milli hverra þrjátíu sekúndna. Bætið 1/3 bolla af heslihnetunum út í. Veltið frosnum kúlunum upp úr súkkulaðiblöndunni og setjið á smjörpappír á meðan þær storkna. Þetta er lítil uppskrift en það er lítið mál að tvöfalda eða þrefalda hana. Þessar er líka gott að fyrsta svo maður hafi alltaf smá kruðerí við höndina til að gúffa í sig!

Nutella, ískex og súkkulaði – getur ekki klikkað. Mynd: Sunna Gautadóttir

Maltesers

Um 50–100 stykki

Hráefni:

2 eggjahvítur
70 g sykur
70 g flórsykur
1–2 msk. malt bragðefni („barley malt extract“)
200 g mjólkursúkkulaði

Aðferð:

Hitið ofninn í 100°C og setjið smjörpappír á 2 ofnplötur. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær freyða og bætið þá sykrinum varlega saman við í einni bunu. Stífþeytið síðan eins og um marengs sé að ræða, í 10–15 mínútur. Bætið malt bragðefninu saman við á meðan þið þeytið. Hættið síðan að þeyta, dembið flórsykrinum í gegnum sigti til að losna við köggla og blandið honum varlega saman við marengsinn með sleif eða sleikju. Setjið blönduna í sprautupoka eða plastpoka sem búið er að klippa eitt hornið af. Sprautið agnarsmáum kúlum á ofnplötuna en mér finnst gott að hafa kúlurnar minni en ég vil að þær verði endanlega því þær verða meiri um sig þegar búið er að súkkulaðihúða þær. Setjið plötuna inn í ofninn í miðjuna og bakið í 1 klukkustund. Takið plötuna út úr ofninum og leyfið kúlunum að kólna.Ég mæli með því að fara strax í að súkkulaðihúða kúlurnar þegar þær hafa kólnað því þær eru stökkastar nýkomnar úr ofninum. Innan nokkurra klukkustunda hafa þær dregið í sig raka og eru ekki eins stökkar. Bræðið því súkkulaðið og notið skeið eða gaffal til að velta kúlunum upp úr súkkulaðinu. Raðið þeim á smjörpappír og reynið að sýna þolinmæði á meðan súkkulaðið storknar.

Það tekur svolítið langan tíma að gera Maltesers en það er þess virði. Mynd: Sunna Gautadóttir

Snickers-súkkulaði

Botn – Hráefni:

1 1/4 bolli súkkulaðibitar
1/4 bolli hnetusmjör

Núggat – Hráefni:

56 g smjör
1 bolli sykur
1/4 bolli „evaporated“ mjólk*
1 dós sykurpúðakrem („marshmallow creme/fluff“)
1/4 bolli hnetusmjör
1 tsk. vanilludropar
1 1/2 saxaðar salthnetur

Karamella – Hráefni:

400 g rjómakaramellur
1/4 bolli rjómi

Toppur – Hráefni:

1 1/4 bolli súkkulaðibitar
1/4 bolli hnetusmjör

Aðferð:

Byrjum á botninum. Takið til form að eigin vali, ekki stærra en 20 sentimetra. Smyrjið það vel. Setjið súkkulaði og hnetusmjör í skál og bræðið saman í örbylgjuofni en passið að hræra alltaf í blöndunni með 20 sekúndna millibili. Dreifið blöndunni í botninn á forminu og setjið inn í ísskáp.

Svo er það núggat. Bræðið smjörið yfir meðalhita. Bætið sykri og mjólk saman við og blandið vel saman. Hrærið stanslaust þar til blandan fer að sjóða. Látið sjóða í 4–5 mínútur og hrærið reglulega í blöndunni svo hún brenni ekki. Bætið sykurpúðakreminu, hnetusmjörinu og vanilludropum saman við. Hrærið þar til blandan er silkimjúk. Takið af hitanum og blandið hnetunum saman við. Dreifið þessu jafnt yfir botninn og setjið aftur inn í ísskáp.

Því næst karamellan. Blandið karamellum og rjóma saman í skál sem þolir örbylgjuofn. Hitið í örbylgjuofni í 30 sekúndur í senn þar til allt er bráðnað saman. Dreifið karamellunni yfir núggatið og setjið formið aftur inn í ísskáp.

Og loks toppurinn. Setjið súkkulaði og hnetusmjör í skál og bræðið saman í örbylgjuofni en passið að hræra alltaf í blöndunni með 20 sekúndna millibili. Dreifið blöndunni ofan á karamelluna og setjið aftur inn í ísskáp þar til súkkulaðið hefur storknað. Skerið í bita og njótið.

* ATH – Þessa mjólk er hægt að kaupa í asískum matvöruverslunum og er hún þykk dósamjólk en nokkru af vatni hefur verið náð úr henni með uppgufun. Auðvelt er að búa þessa mjólk til sjálfur. Til að búa til 1 bolla af „evaporated“ mjólk þarf að sjóða 2 1/4 bolla af nýmjólk niður þar til 1 bolli er eftir.

Heimagert Snickers er rosalegt! Mynd: Sunna Gautadóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa