fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fókus

Tvær hliðar Frímanns Andréssonar – Útfararstjóri og plötusnúður: „Maður ætti að skipta um starf þegar maður situr með grátandi fólki og það snertir ekkert við manni“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 9. júní 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frímann Andrésson byrjaði ungur að vinna við útfarir og það sem átti aðeins að vera sumarstarf varð að ævistarfi hans. Þrátt fyrir að hann segist hafa verið stefnulaus sem ungur maður er ljóst að rauði þráðurinn í störfum hans hefur ætíð verið að hjálpa fólki, jafnt í gleði sem á sorgarstundum.

Blaðamaður settist í sófann með Frímanni hjá Útfararþjónustu Frímanns og Hálfdáns í Hafnarfirði, þar sem Frímann tekur á móti aðstandendum og leiðbeinir þeim um hinstu stund ástvina þeirra; hvenær, hvar og hvernig útför mun fara fram.

„Við erum þrjú sem störfum hérna, lítið og gott fyrirtæki. Mér finnst þetta nánara og maður kynnist fólki betur hér en á stærri vinnustað, þar sem fólk er kannski alltaf að hitta nýjan starfsmann. Hér höldum við okkur við þá reglu að ef ég verð fyrir svörum í fyrsta sinn, þá tek ég viðtalið við aðstandendur og reyni að fylgja þeim í allar athafnir og það sem þarf að gera. Samskiptin verða eðlilegri og persónulegri þannig og ég kann betur við það fyrirkomulag,“ segir Frímann.

Hann er fæddur í Reykjavík, gekk í Laugarnesskóla, Ölduselsskóla og útskrifaðist síðan úr Menntaskólanum við Sund. „Bekkjarkerfið var ástæðan fyrir að ég fór þangað, mér fannst það halda betur utan um hópinn, frekar en fjölbrautaskóli þar sem maður hefði týnst svolítið.“ Eftir fyrsta bekk í menntaskóla, fór Frímann og vann yfir sumartímann hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur við hefðbundin störf; reyta arfa, gróðursetja blóm, laga til leiði, grafartekt og slíkt,

„Ég vann síðan öll sumur með menntaskólanum þar og þar með var ég kominn inn í þennan heim sem ég er búinn að vera viðloðandi síðan. Þegar ég útskrifaðist úr MS árið 1993 þá var ég alveg stefnulaus og vissi ekkert hvað mig langaði að gera, og eðlilega fékk ég bara vinnu áfram í kirkjugörðunum. Árið 1996, þegar ég var 23 ára, losnaði sumarstarf hjá Útfararstofu kirkjugarðanna. Þar var ég næstu 19 árin þannig að starfið varð aðeins meira en sumarstarf. Síðan urðu breytingar þar, og Hálfdán bað mig um að koma í fullt starf hingað yfir.“

Aðspurður um hvaða nám útfararstjóri þurfi að hafa, svarar Frímann að reynslan sé námið. „Maður fer bara í djúpu laugina strax, og starfar við hliðina á öðrum reyndari, þannig hefur þetta alltaf verið og er ennþá. Í einhvern tíma ertu bara með, svo ferðu að gera hlutina með öðrum reyndari, svo gerir þú þá sjálfur.“

„Þegar ég byrjaði voru þrjár útfararþjónustur. Í dag eru tíu útfararþjónustur á höfuðborgarsvæðinu og samkeppnin heilmikil. Við auglýsum að vissu marki, en það er hluti af tabúinu við dauðann að það þykir ekki við hæfi að auglýsa útfararþjónustu of mikið. Maður þarf samt alltaf að minna á sig og ég segi að góð þjónusta er alltaf besta auglýsingin. Margir Hafnfirðingar vilja líka leita til hafnfirsks fyrirtækis og það er mjög notalegt.

Frímann á vinnustað „Starf útfararstjóra felst í að sjá um allt frá andláti til jarðsetningar.“

Hvernig er hefðbundinn vinnudagur á útfararstofu, er þetta 8-4 vinna?

„Í grunninn er starfið það, skrifstofan er opin kl. 8-17 og við reynum að gera allt sem þarf innan þess tíma. En fólk deyr ekki bara á þessum tíma og hjúkrunarheimili og líknardeildin eru ekki með aðstöðu til að geta geymt hinn látna lengi og hringja því í okkur og þá förum við einfaldlega í fötin og leggjum af stað. Minn fyrri vinnustaður sér um að manna útköll frá lögreglu, þar eru alltaf tveir á vakt standby allan sólarhringinn. Það er eitthvað sem ég gerði þegar ég starfaði þar, var á vakt tvær vikur í mánuði og það var of mikið fannst mér. Maður vill eiga líf fyrir utan vinnuna líka. En móti kemur hér að þegar fyrirtækið er lítið og fámennt þá þarf maður að taka á sig meira, eins og nú var verið að biðja um útför á frídegi og þá verður maður við því.

Starf útfararstjóra felst í að sjá um allt frá andláti til jarðsetningar. Við sækjum hinn látna og færum í líkhús, síðan koma aðstandendur í viðtal til mín þar sem ég fer yfir allt ferlið með þeim. Ég er bara með lista þar sem ég fer yfir alla möguleika, ég sýni þeim kistur og duftker, er þetta jarðarför eða bálför, hvaða kirkjugarð erum við að fara í, hvaða prest ætlið þið að tala við, hvaða dag á útförin að fara fram og klukkan hvað, það þarf allt að pússlast saman.

Við klæðum og búum um hinn látna í kistuna. Það þarf að loka augum og munni, laga hár og snyrta. Stundum kemur ósk um varalit, að naglalakka eða annað, og öllum svona óskum er lítið mál að verða við. Það er allt opið hvað fólk vill taka mikinn þátt í ferlinu, en í fæst skipti vill fólk taka þátt í því öllu.

Síðan þarf að undirbúa kistulagningu og útför, í dag er algengast að þetta liggi saman, þá byrjum við daginn á að sækja kistuna og keyra í kirkjuna, mætum síðan fyrir athöfn til að taka á móti gestum, síðan er viðvera við athöfnina. Að lokum þarf að keyra í kirkjugarðinn eða það er kvatt við kirkjuna ef þetta er bálför. Athafnir eru oftast kl. 13 og seinnipartinn eru viðtöl, svona reynir maður að pússla deginum saman. Svo koma álagspunktar, eins og síðustu tvo mánuði, sem þýðir að stundum eru 2-3 útfarir á dag.

Ég kann vel við þetta starf, maður er út um allt og hittir mikið af fólki, ég yrði sturlaður ef ég væri bundinn við skrifborð allan daginn eða við búðarstörf þar sem maður er inni í lokuðu rými

Það eru margir kostir við þetta starf ef þú kemst yfir þann hjalla að þú ert að vinna með látið fólk.“

Frímann segir margt hafa breyst í starfinu frá því hann byrjaði í því, hvað þá frá fornu fari þegar húskveðjur voru algengar þar sem kistan með látnum einstaklingi stóð heima í stofu í marga daga.

„Áður voru margir eldri prestar með þetta mjög formfast, þungar ræður, þrúgandi tónlist og athafnir voru mjög erfiðar og yfirþyrmandi. Í dag er þetta allt að verða miklu léttara, tillit tekið til þess látna og aðstandenda, tónlistin er oft dægurlög, jafnvel uppáhaldslög hins látna. Prestar vilja stundum fá fólk til að hlæja, mér finnst mjög notalegt að vera frammi í anddyri og heyra þegar presturinn slær á létta strengi og fær fólk til að hlæja og minnast þess góða hjá hinum látna. Þetta léttir stundina mikið. Auðvitað á þetta að vera svoleiðis, af hverju erum við ekki löngu komin þangað? Velflestir prestar taka vel í þetta, en hins vegar má ekki gleyma að um er að ræða kirkjulega athöfn og því eru oftast einhverjir sálmar og fast form á athöfninni.“

Sumarstarf varð að ævistarfi Frímann hefur sinnt ætluðu sumarstarfi núna í 23 ár og er ánægður í starfinu.

Samskipti við aðstandendur bæði það besta og erfiðasta við starfið

 „Að vera í hlutverki þess sem aðstoðar fólk er það besta við starfið og fólk er í langflestum tilvikum þakklátt fyrir það sem maður er að gera. Á sama tíma er erfiðast að sitja með aðstandendum sem eiga mjög erfitt. Það reynist fólki mjög erfitt þegar fólk fellur frá í blóma lífsins, vegna sjálfsvíga eða ung börn. Fólk á að geta lifað háan aldur og dáið en því miður er það ekki alltaf þannig, það gerist bara og þannig er lífið. Maður er stundum berskjaldaður og mismunandi hvað viðtöl taka á mann, en ég held maður ætti að skipta um starf þegar maður situr með grátandi fólki og það snertir ekkert við manni. Maður getur þurft að kyngja í viðtölum svo lítið beri á.“

Á Esjunni Frímanni finnast göngutúrar bestir til að kúpla sig frá vinnunni.

Starfið hlýtur oft að reyna á andlegu hliðina, hvað gerir þú helst til að kúpla þig frá vinnunni?

„Ég labba á fjöll og geri það oftast einn, ég þoli ekki íþróttastöðvar. Svo slappa ég rosalega vel af með að liggja heima í sófa og horfa á sjónvarpið, ég er yfirlýstur sjónvarpssjúklingur! Stundum stend ég mig að því að hafa verið bara inni í náttfötunum, gott veður úti og maður fær pínu samviskubit, ég verð að venja mig af því.“

Sjálfboðaliði Frímann hefur verið meðlimur í Landsbjörgu frá unglingsaldri.

Fleiri hliðar Frímanns

Útfararstjórastarfið er ekki eina starf Frímanns, því hann gegnir tveimur öðrum þó í minna mæli sé og byrjaði í þeim báðum á grunnskólaaldri, annars vegar starfar hann sem plötusnúður og hins vegar sem meðlimur í Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

„Ég var 16 ára þegar ég byrjaði í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Starfið þar heillaði mig svakalega og ég hætti meira að segja í skóla í eitt ár, ég var svo upptekinn af björgunarsveitarstarfinu. Það er gott við þetta félag að þú getur lagt þig eftir því sem höfðar til þín. Eins og þegar ég var búinn með nýliðann þá hafði ég ekki áhuga á klifri, skyndihjálpin höfðaði til mín, ég kláraði allt sem ég gat þar og tók leiðbeinandann. Ég hafði áhuga á fallhlífastökki líka, tók grunninn, stökk nokkrum sinnum og fór í bandaríska fallhlífaherskólann og tók grunnnámskeiðið þar, en ég fór ekki þá leið að kaupa fallhlíf og stunda sem sport. Svo fór ég bara að gera eitthvað annað. Landsbjörg er góður félagsskapur og mjög gefandi starf,“ segir Frímann sem er þó búinn að vera mis virkur í gegnum árin.

Stokkið út Fallhlífastökk áttu allan hug Frímanns á tímabili.

„Björgunarsveitastarfið er gott að því leyti að þú getur ráðið sjálfur hversu virkur þú ert. Félagi minn hringdi síðan í mig árið 2003-4 og fékk mig með sér í aðgerðastjórn, sem var frábær leið fyrir mig aftur inn í félagið og mér finnst þetta rosalega gaman. Ég er í því sem heitir svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 1. Þar eru 1-2 úr hverri sveit sem mynda þéttan kjarna og eiga samskipti við lögreglu, aðstandendur þegar einhver er týndur, skipa leitarsvæði og ég hef fundið mig í þessu starfi. Svæðisstjórnin er fín, það er aksjón en ég hef ekki áhuga á að bjóða mig fram í til dæmis stjórn Landsbjargar, það er of mikil fundarseta fyrir minn smekk, en um að gera fyrir þá sem hafa áhuga að sækja eftir því, það höfðar ekki til mín.“

Plötusnúðalífið Frímann fyllir dansgólfið á Nasa.

Plötusnúður þrátt fyrir háan aldur

Undir lok grunnskólans hjá Frímanni þegar rafræna danstónlistin fór að ryðja sér til rúms hér á landi og plötusnúðar voru í hávegum hafðir leit hann til fyrirrennara sinna eins og Þorsteins Högna sem var með þátt á Bylgjunni. „Maður hlustaði á þáttinn, tók upp lög á kassettur og skrifaði niður lista. Síðan þegar pabbi fór erlendis var hann sendur út með miða yfir plötur sem hann átti að kaupa, hann þvældist í vafasöm hverfi og kjallara þar sem voru plötubúðir. Seinna fór maður sjálfur út og keypti 100-200 plötur, áður en plötubúðir urðu að veruleika hér heima. Á þessum tíma var reif-menningin ný og maður tók þátt í þeirri umbreytingu og ég var mestmegnis að spila í frekar ólöglegum partýum í bílakjöllurum eða slíkt, þetta var mikið jaðar.“

Síðan tók Frímann að spila á stöðum eins og Tunglinu, Ingólfskaffi, Rosenberg og fjölda staða sem opnir voru í stuttan tíma. „Svo kom Thomsen-tímabilið sem var ævintýralegt, þá var gefinn frjáls opnunartími, staðir þurftu ekki að loka klukkan þrjú, heldur var bara opið eins lengi og fólk vildi, við spiluðum stundum fram undir morgun og fólk var oft í mjög annarlegu ástandi,“ segir Frímann. „Í dag er þetta þannig að maður er bara að spila einstaka sinnum á Kaffibarnum enda orðinn háaldraður, þetta er í dag kannski eitt kvöld í mánuði og mér finnst það fínt!

Ég er oft spurður hvort ég taki að mér einkapartý, sem ég geri ekki. Ég spila bara teknó- eða housetónlist og ef hún er sett á fyrir fólk komið yfir miðjan aldur eða fólk sem fílar hana ekki þá er það ekkert skemmtilegt. Fólk sækist vonandi í að koma þegar ég er að spila af því að það fílar tónlistina sem ég er að spila.“

Frímann segir útgjöldin alltaf meiri en innkoman er, og margir staðir hafi í gegnum tíðina gengið á lagið með að plötusnúðar spili af áhuganum einum saman og því borgað lítið sem ekkert. „Þú ert að panta plötur og láta senda heim, eða í dag að sækja tónlist af netinu, þú þarft að eiga græjur en maður hefur brennandi áhuga á þessu. Áður var maður oft með mikinn farangur með sér, alltaf með fullt af plötum, þvílíkur burður og stundum var maður með plötuspilara og mixer, núna er maður með einn svona kubb með allri tónlistinni sem maður hefur keypt sér í gegnum árin.“

Aðspurður hvort hann hafi aldrei viljað gera tónlist sjálfur svarar Frímann að það sé mjög algeng spurning og svarið við henni sé að það henti honum ekki. „Ég get varið mörgum kvöldum að fara í gegnum rafrænar plötubúðir að leita að réttu lögunum, en að eyða mörgum kvöldum eða vikum í að reyna að finna rétta taktinn er eitthvað sem ég fíla ekki.“

Frímann er faðir tveggja drengja, 11 og 15 ára, og segir hann þeim ekki finnast starf föður síns eitthvað sérstakt. „Mér finnst þetta svo eðlilegt að ég geri mér ekki grein fyrir hvort öðrum finnst það sérkennilegt starf. Það er sjokk fyrir fólk sem hefur enga reynslu af dauðanum að standa allt í einu í líkhúsi og þú þarft að komast yfir þann þröskuld ef þú ætlar að vera í þessu starfi. Ég er bara mjög ánægður, þú einhvern veginn kannt við þetta starf strax eða ekki og ég get ekki séð að ég sé að fara að skipta um starf úr þessu. Það er skemmtileg samsetning að sinna þessu starfi og vera svo plötusnúður af og til. Sitt hvor endinn á lífsspektrúminu: sorg og gleði, en alltaf tengdur fólki.“

Hinsta ferðin Fararskjótinn sem keyrir þá látnu hinstu ferðina í kirkju og kirkjugarð.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sagan á bak við Frank Mills

Sagan á bak við Frank Mills
Fókus
Fyrir 2 dögum

Prumpulykt að gera út af við hjónaband til 30 ára

Prumpulykt að gera út af við hjónaband til 30 ára
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“

Stórbrotið atvik í Pallborði Vísis – „Þetta er fáránleg spurning“
Fókus
Fyrir 2 dögum

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?

MeToo-byltingin nötrar eftir sláandi bakslag – Verður Weinstein laus allra mála?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“