Í bandaríska sjónvarpsþættinum Today sagði hún að þetta hafi sífellt ágerst og ástandið farið síversnandi. Suma daga hafi hún ekki einu sinni vitað hvar hún var. Læknar rannsökuðu hana ítrekað en fundu ekki út hvað var að henni fyrr en eftir að hún var send í sneiðmyndatöku á heila. Þá sáu þeir bólgu í heila þessarar 42 ára konu. Rachel var sagt að hugsanlega væri hún með illkynja heilaæxli.
„Okkur hjónunum brá mikið og vildum bara að þetta yrði fjarlægt. Ég leyfði mér aldrei að hugsa að þetta væri krabbamein.“
Sagði hún í samtali við ABC.
Þegar Raj Shrivastava og Jonathan Rasouli, taugaskurðlæknar á Mount Sinai sjúkrahúsinu í New York, skáru Rachel upp í september fögnuðu þeir mikið þegar þeir sáu hvað var í heila hennar. Heilaæxli eru oft mjúk og dreifast um heilann en það sem þeir fundu í heila Rachel var nokkuð hart og fast. Þegar þeir opnuðu þetta sáu þeir að þetta var bandormur og því var útlitið ekki eins dökkt fyrir Rachel.
„Hún var með sníkjudýr í höfðinu og það gátum við fjarlægt svo við vorum mjög ánægðir. Þetta er ein af þessum sjaldgæfu aðstæðum þar sem maður sér sníkjudýr og hugsar: „Vá, þetta er frábært!““
Er haft eftir læknunum.
Ekki er vitað hvernig bandormurinn barst í Rachel en bandormar af þeirri tegund sem var í heila hennar eru sjaldgæfir í Bandaríkjunum og Rachel hefur aldrei ferðast út fyrir Bandaríkin.