Hildur: Ekkert að þessu orði
Sindri Sindrason sjónvarpsmaður á Stöð 2 segir að Hildur Lilliendahl Viggósdóttir eigi skilið að fá afslátt í Epal næst þegar hún verslar þar. Þessi orð lætur hann falla á Facebook-síðu Maríu Lilju Þrastardóttur. Þá segir Sindri að honum finnst ekkert að orðinu Epal-hommi. Hafa Sindri og HIldur þar skipst á nokkrum setningum.
Viðtal Sindra við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur hefur dregið dilk á eftir sér. Sindri spurði Töru hvort að fordómar byggju ekki innra með hverjum og einum en Tara sagði að þessi skoðun væri sem töluð úr munni einhvers í forréttindastöðu. Sindra brást við með því að segja:
„Veistu hvað ég er í mörgum minnihlutahópum? Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt, ég er fyrsti samkynhneigði maðurinn til að ættleiða á Íslandi, ég er giftur útlendingi – eða hálfum útlendingi – þannig að við skulum ekki fara þangað.“
Vakti viðtalið mikla athygli og varð umdeilt mjög. Morgunblaðið greindi frá því að á Facebook-síðu Töru Margrétar sagði Hildur Lilliendahl:
„Jaðarsetningin á Sindra Sindrasyni ætlar bara ekki að stoppa. Allar fiðlurnar og öll kertin fyrir hann. Mér er skapi næst að kveikja í hárinu á mér fyrir aumingja kúgaða hvíta ófatlaða epalhommann með alla sjónvarpsþættina.“
Fékk Hildur mikla skömm í hattinn. María Lilja Þrastardóttir tjáði sig fyrir skömmu á Facebokk með einni eftirfarandi setningu: „Mér finnst Epalhommi mjög fyndið.“ Þar hafa átt sér stað fjörugar umræður sem bæði Hildur og Sindri hafa tekið þátt í.
Sindri tekur til máls og segir: „Mamma hringdi mjög hissa í mig og spurði hvað væri að vera epla-hommi …. og já Epal-hommi er fyndið!!“
Þá bætir Sindri við á öðrum stað að Hildur eigi skilið að fá afslátt næst þegar hún verslar í Epal og tekur Hildur undir það.
Þá segir Sindri:
„Svo má bara hafa húmor fyrir svona orðum….gerir rökræðurnar fyndnari og skemmtilegri.“
Það virðast ekki vera mikil illindi á milli Hildar og Sindra. Hildur er þó þeirrar skoðunar að Sindri njóti mikilla forréttinda: „Ég er sérfræðingur í að hlaupa á mig. En mér finnst nákvæmlega ekkert að þessu orði. Og það var sannarlega ekki notað til að niðra heldur til að lýsa því að Sindri nýtur gríðarlega mikilla forréttinda.“