Saga Donnu Cruz sem flutti til Íslands frá Filippseyjum ásamt fjölskyldu sinni hefur vakið mikla athygli. Hún var fjögurra ára þegar foreldrar hennar settust að hér á landi. Hún segir börn innflytjenda upplifa sig minna virði í samfélaginu en jafnaldrar þeirra. Donna hefur slegið í gegn á Snapchat en hún greinir frá því að hún hafi fengið nokkurn fjölda skilaboða sem snýr að uppruna hennar og sýnir fordóma í garð innflytjenda.
Ein skilaboð sem sýnd eru í frétt Vísis segir notandi að nafni Sylvía við Donnu:
„Þú ert ekkert fyndin, hræðilega ljót og hver nennir að horfa á grjón tala um ekki neitt. Hættu bara, deletaðu snappinu þínu, þú ert ógeð.“
Donna segir að innflytjendur skíri börn sín oft íslenskum nöfnum til að reyna að sleppa við fordóma.
„Sama hversu lengi ég eða einhver manneskja er búin að búa á Íslandi, ef við lítum ekki íslensk út þá erum við allt í einu ekki íslensk. Það er bara svo leiðinlegt að þetta þurfi að vera svona á Íslandi sem er pínulítið land þar sem fullt af útlendingum búa. Af hverju er þetta enn þá til? Af hverju er þetta enn þá mál?“
Heimir Karlsson annar stjórnandi Íslandi í bítið tjáir sig um fréttina. Hafa stutt skrif hans vakið mikla athygli. Heimi er mikið niðri fyrir en hann segir:
„Ég get ekki sætt mig við fólk með kynþáttafordóma. Kynþáttafordómar eru ekki ,,skoðun“.“
Þá segir Heimir að ekki sé hægt að halda fram lengur, á tímum upplýst samfélags að kynþáttafordómar séu byggðir á þekkingarleysi. Sú afsökun sé ekki lengur tekin gild.
„Því segi ég að þeir sem eru kynþáttafordómafullir eru bara einfaldlega ekki góðar manneskjur.“