„Það var líkt og Íslendingar væru ein fjölskylda á meðan að þessu stóð,“ segir Sóley Eiríksdóttir rithöfundur og mastersnemi en hún ólst upp á Flateyri og var 11 ára gömul þegar snjóflóðið féll. 19 manns létu lífið- þar á meðal stóra systir Sóleyjar. Sóley fannst á lífi eftir níu tíma bið undir snjónum en hún ræðir við Bleikt.is í tilefni af af útgáfu bókar sinnar Nóttin sem öllu breytti en hana skrifaði Sóley ásamt Helgu Guðrúnu Johnson.
„Ég vaknaði um miðja nóttina við að það lék allt á reiðiskjálfi og áður en ég gat áttað mig á því hvað var að gerast kom sprenging og það var eins og hvít alda kæmi inn um gluggann,“ segir Sóley um leið og hún rifjar upp nóttina örlagaríku.
„Svo hefur líklega liðið yfir mig því svo vakna ég við það að ég er algerlega pikkföst og átta mig strax á því að ég hafi lent í snjóflóði. Í fyrstu var ég ótrúlega hrædd og öskraði á hjálp en hálförmagnaðist fljótt af þreytu svo ég endaði á því að bíða róleg eftir að einhver myndi finna mig. Ég lá þar í níu tíma áður en mér var bjargað.“
Þá segir hún sín fyrstu viðbrögð eftir að hafa verið tilkynnt um andlát systur sinnar hafi verið segja „Ég vissi það.“ Hún meðtók fréttirnar ekki í fyrstu og var í miklu losti.
Í BA ritgerð sinni í sagnfræði skrásetti Sóley frásagnir heimamanna af atburðinum og kveðst hafa fundið hjá sér þörf til að gera meira við efnið. „Ég hef haft það í huga þessi ár og þegar voru 19 ár liðin frá flóði ákvað ég að nú væri rétti tíminn til að koma þessu efni frá mér í bók,“ segir hún.
Útkoman er fyrrnefnd bók Nóttin sem öllu breytti. Þrátt fyrir erfiða reynslu og minningar kveðst Edda hugsa hlýlega til æskustöðvanna. „Mér finnst þetta vera einn fallegasti staðurinn á landinu og ég er alltaf spennt fyrir að fara aftur,“ segir hún en grein Bleikt má finna í heild sinni hér.