fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Bjarki átti tvö ár ólifuð en þau eru orðin sex – Núna hafa ný æxli myndast og útlitið ekki gott – „Lífið er núna, lifðu því!“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 7. nóvember 2018 07:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarki Már Sigvaldason hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika og líka upplifað blómstrandi hamingju. Fyrir sex árum greindist hann með krabbamein og fyrir tveimur mánuðum eignaðist hann yndislega dóttur með ástríkri eiginkonu sinni, Ástrós Rut Sigurðardóttur.

Þegar Bjarki greindist með krabbamein fyrir sex árum var hann talinn eiga tvö ár ólifað. En hann lifir enn. Hins vegar fékk hann slæmar fréttir fyrir skömmu eins og kemur fram í áhrifaríkum pistli hans á Facebook:

„…ný æxli hafa myndast í heilanum á mér. Það eru ekki bara æxli í sárinu heldur hafa myndast ný æxli bæði í höfuðleðri og í hnakka. Eftir að hafa rætt við mitt læknateymi fékk ég þær fréttir að ekki er lengur möguleiki á að skera meinin í burtu né geisla, útlitið er því ekki gott.“

Jákvæð eru hins vegar þau tíðindi að í samráði við lækna sína ætlar Bjarki að prófa lyf sem getur hægt á framgangi æxlanna og gefið honum lengri tíma með ástvinum hans.

Bjarki og fjölskylda hans eru staðráðin í því að halda sínu striki og njóta lífsins til hins ýtrasta við þessar erfiðu aðstæður: „Við höfum lifað með því hugarfari síðustu ár að lífið er til þess að njóta og við tökum bara einn dag í einu. Því ætlum við að halda áfram.“

Bjarki er líka afar þakklátur fyrir eina bestu gjöfina sem honum hefur hlotnast í lífinu: „Það stærsta sem ég hef afrekað er þó að fá hana Emmu mína í fangið og stofna þar með fjölskyldu en það hefur verið minn helsti draumur og er ég stoltur og þakklátur að hafa þær í lífi mínu.“

Áhrifamikill pistill Bjarka er birtur í heild hér að neðan. Skrif hans láta engan ósnortinn. Í stuttu spjalli við DV segir Bjarki að það hafi tekið mikið á að skrifa þennan pistil en honum hafi liðið betur eftir að hafa komið hugsunum sínum og tilfinningum frá sér með þessum hætti: „Við fjölskyldan höfum alltaf haft þá stefnu að vera alveg opin með okkar veikindi og það var farið að kvisast út að eitthvað væri í gangi aftur þannig það er gott að geta losað þetta út.“

DV sendir Bjarka og fjölskyldu hans einlægar stuðningskveðjur.

Kæra fjölskylda og vinir

Það er víst kominn tími á smá pistil frá mér og gefa ykkur stöðuna á mér. Ég hef gert mig heimakominn á krabbameinsdeild Landspítalans síðustu tíu daga vegna mikilla bólgna og verkja í hausnum. Vegna þessa fór ég í ítarlega rannsókn á höfði og niðurstöðurnar voru þær að ný æxli hafa myndast í heilanum á mér. Það eru ekki bara æxli í sárinu heldur hafa myndast ný æxli bæði í höfuðleðri og í hnakka. Eftir að hafa rætt við mitt læknateymi fékk ég þær fréttir að ekki er lengur möguleiki á að skera meinin í burtu né geisla, útlitið er því ekki gott.

Ég hef lifað í sex ár frá greiningu, mér var aðeins gefin tvö. Það þýðir einfaldlega að ég gefst ekki upp og hugafarið hjálpar mér alltaf aftur uppá lappirnar. Þegar við Ástrós fengum þær fréttir að ég á aðeins nokkra mánuði eftir var það skiljanlega mikið áfall, Emma okkar verður tveggja mánaða á morgun og ég er ekki tilbúinn að gefast upp. Því fékk ég læknana mína til að brjóta aðeins heilann og reyna að finna leið til að láta mér líða betur og jafnvel reyna að lengja minn tíma sem ég á eftir. Við ákváðum að prófa lyf sem á að draga úr heilabólgum og verkjum og reyna nýja samblöndu af krabbameinslyfi sem hugsanlega gæti hægt á framgangi æxlanna og gefið mér aðeins meiri tíma með fólkinu sem ég elska.

Þó svo að þetta hafi slegið okkur fjölskylduna vel niður þá ætlum við ekki að láta það hafa afgerandi áhrif á okkur og okkar líf. Við höfum lifað með því hugarfari síðustu ár að lífið er til þess að njóta og við tökum bara einn dag í einu. Því ætlum við að halda áfram.

Ég lít til baka þessi 6 ár sem ég hef verið veikur með miklu stolti.. ég hef náð að upplifa ótrúlega mikið og náð að gera þá hluti sem mig hefur dreymt um. Eiga frábært líf með bestu konu í heimi og fá að giftast henni, ferðast út um allt á frábæra staði þar sem brúðkaupsferðin stendur klárlega uppúr.
Svo eru litlu hlutirnir eins og að njóta góðra stunda með fjölskyldunni líka svo mikilvægir og ómetanlegir. Það stærsta sem ég hef afrekað er þó að fá hana Emmu mína í fangið og stofna þar með fjölskyldu en það hefur verið minn helsti draumur og er ég stoltur og þakklátur að hafa þær í lífi mínu.

Það er engin spurning að næstu mánuðir eiga eftir að taka á, óvissan er mikil og þetta tekur á andlegu hliðina hjá allri fjölskyldunni. Eitt er þó víst að við fjölskyldan ætlum að gera allt sem við getum til þess að nýta þennan tíma okkar saman eins vel og hægt er og á besta mögulegan hátt. Njóta þess að vera saman og reyna að upplifa það sem okkur langar til að upplifa saman.

Það skiptir ekki máli hversu lengi þú lifir, heldur skiptir það máli hvernig þú lifir þínu lífi. Lífið er núna, lifðu því!

Ég vil þakka ykkur fyrir mikinn stuðning síðustu ár, það er ómetanlegt að eiga svona gott fólk í kringum sig. Takk fyrir að hugsa vel til mín, þið megið svo sannarlega halda því áfram og senda okkur jákvæða strauma og kraft.

 

Ást og virðing,
Bjarki Már“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta